Reebok Fitness braut lög með breytingu í miðri farsótt

14.09.2020 - 13:32
Mynd með færslu
Mynd úr safni Mynd: Nicole De Khors - burst.shopify.com/Creative commo
Neytendastofa hefur komist að þeirri niðurstöðu að líkamsræktarstöðin Rebook Fitness hafi brotið lög þegar uppsagnarskilmálum var breytt einhliða í COVID-19 faraldrinum í vor. Líkamsræktarstöðinni hefur verið bannað að viðhafa slíka viðskiptahætti aftur.

Fram kemur í ákvörðun Neytendastofu að stofnuninni hafi borist fjöldi ábendinga og fyrirspurna frá neytendum varðandi rétt þeirra til að segja upp eða frysta áskrift sína að líkamsræktarstöðvum þegar þeim var lokað vegna COVID-19.   

Beindust margar ábendingarnar að því að takmarkanir hefðu verið settar á það að segja upp áskriftinni.

Neytendastofa óskaði í framhaldinu eftir skýringum frá forsvarsmönnum Rebook Fitness og vísaði meðal annars til fréttar sem birtist á visir.is í mars. Þar kom fram að viðskiptavinir líkamsræktarstöðvarinnar gátu ekki sagt upp áskriftinni á netinu heldur þurftu þeir að mæta á skrifstofu félagsins og fá aðstoð við það.

Þetta taldi Neytendastofa geta brotið gegn neytendalögum þar sem allir áskriftarsamningar væru gerðir rafrænt. Með þessu væru verulegar takmarkanir gerðar á möguleikum neytenda til þess að segja upp áskrift með því að skylda þá til að mæta á skrifstofu félagsins á tímum COVID-19.

Engin svör bárust við fyrirspurn Neytendastofu.

Stofnunin segir ljóst að Rebook Fitness hafi gert einhliða breytingu á skilmálum um uppsögn samnings. Þannig hafi notandinn ekki lengur getaðsagt upp samningi sínum á vefsíðu líkamsræktarstöðvarinnar heldur þurft að mæta í eigin persónu á skrifstofutíma.   

Þessi skilmálabreyting hafi verið gerð einhliða og án tilkynningar.  Neytendur hafi ekki getað gripið til ráðstafana ef þeir vildu ekki sætta sig við breytta skilmála. Þá bendir stofnunin á að breytingin hafi verið gerð þegar enginn gat nýtt sér þjónustu líkamsræktarstöðvarinnar.

Neytendastofa telur því að þessir viðskiptahættir Rebook Fitness hafi brotið í bága við góða viðskiptahætti og raskað verulega fjárhagslegum hagsmunum neytenda.

 

freyrgigja's picture
Freyr Gígja Gunnarsson
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi