Prófessor vill loka næturlífinu í Kaupmannahöfn

Mynd með færslu
 Mynd: CC0 - Pixabay
Prófessor við Kaupmannahafnarháskóla telur að stjórnvöld verði að loka öllum næturklúbbum og skemmtistöðum í höfuðborginni til að hefta útbreiðslu kórónuveirunnar. „Það verður að herða tökin og það verður að gerast núna,“ segir Allan Randrup Thomsen, veirufræðiprófessor.

Dönum gengur illa að ráða við aðra bylgju faraldursins.  Sjúkrahúsinnlögnum fjölgar dag frá degi og í síðasta sólarhringinn greindust  alls 347 með kórónuveiruna sem er svipað og var í vor. 

Gripið hefur verið til hertra samkomutakmarkana í Kaupmannahöfn, Óðinsvéum og 16 öðrum sveitarfélögum til að bregðast við útbreiðslunni.

Allan Randrup Thomsen, prófessor í veirufræði, telur þetta ekki nóg heldur verði ráðamenn að loka á næturlífið.  

Í samtali við DR bendir Thomsen á að þrátt fyrir nýja bylgju veirunnar sé skemmtanalífið í höfuðborginni enn nokkuð fjörugt. Hröð útbreiðsla smita megi að einhverju leyti rekja til næturlífsins og því væri réttast að loka öllum börum og skemmtistöðum. Leyfa mætti veitingahúsum að vera með sitjandi borðhald en miða fjöldasamkomur við 20 eða 25.

Tyra Krause hjá sóttvarnastofnun Danmerkur sagði fyrr í dag að þau hefðu miklar áhyggjur af næturlífinu.  Skoða þyrfti vel hvaða áhrif það hefði á útbreiðslu veirunnar enda kæmi fólk þar saman úr öllum áttum.

Í stórmörkuðum gæti fólk passað sig en þegar það færi út að skemmta sér væri það saman í hóp sem hitti síðan annan hóp. Þá væri áfengi oft haft um hönd og þegar svo væri gleymdi það sínum einstaklingsbundnum sýkingavörnum.

freyrgigja's picture
Freyr Gígja Gunnarsson
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi