Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Nýr arftaki Merkel valinn í desember

14.09.2020 - 17:15
epa08243408 Christian Democratic Union (CDU) party chairwoman Annegret Kramp-Karrenbauer (L) and German Chancellor Angela Merkel (R) prior the meeting of the party's federal board in the headquarters in Berlin, Germany, 24 February 2020.  EPA-EFE/JENS SCHLUETER
Annegret Kramp-Karrenbauer og Angela Merkel. Mynd: EPA-EFE - EPA
Kristilegir demókratar í Þýskalandi, flokkur kanslarans Angelu Merkel, ætla að velja sér nýjan leiðtoga á flokksþingi í desember. Annegret Kramp-Karrenbauer sem tók við af Merkel í lok árs 2018, gefur ekki kost á sér áfram.

Upphaflega stóð til að velja nýjan leiðtoga í apríl en þeim áformum var frestað vegna kórónuveirufaraldursins. Þjóðverjar ganga að kjörborðinu á næsta ári.

Í kjölfar síðustu kosninga fyrir þremur árum ákvað Angela Merkel að draga sig í hlé að kjörtímabilinu loknu, enda hafði stjórnarmyndun gengið illa, ekki síst vegna gagnrýni systurflokks Kristilegra demókrata í Bæjaralandi á flóttamannastefnu kanslarans.

Þrír flokksmenn voru nefndir í aðdraganda fyrirhugaðs formannskjörs í vor en þeir hafa allir misst flugið eftir að kórónuveirufaraldurinn hófst.

Armin Laschet, forsætisráðherra Norðurrínar- og Vestfalíu, var talinn líklegastur til þess að taka við taumunum í flokknum en hann hefur hlotið harkalega gagnrýni fyrir farsóttarráðstafanir heima fyrir.

Hinir tveir hafa tapað athygli flokksmanna. Fyrirtækjalögfræðingurinn Fredrich Merz og utanríkismálasérfræðingurinn Norbert Röttgen eru hvergi sjáanlegir á þýsku sviði stjórnmálanna.

Leiðtogi Kristilegra demókrata leiðir yfirleitt samsteypustjórn í þýska Sambandsþinginu með systurflokknum CSU í Bæjaralandi. CSU og Markus Söder, leiðtoga flokksins, hefur vaxið ásmeginn undanfarið og allt eins talið líklegt að Söder fari fram á kaslaraembættið að kosningum loknum. Hann hefur gegnt forsætisráðherraembætti í Bæjaralandi síðustu misseri og þótt standa sig vel í aðgerðum gegn heimsfaraldri kórónuveirunnar.