Metfjöldi nýrra smita í heiminum

14.09.2020 - 07:56
epa08330395 A handout photo made available by Barcelona's City Hall on 29 March 2020, shows the extension of the Vall d'Hebron Hospital to take care of the coronavirus patients in Vall d'Hebron, Barcelona, Spain on 29 March 2020. Spain faces the 15th consecutive day of national lockdown in an effort to slow down the spread of the pandemic COVID-19 disease caused by the SARS-CoV-2 coronavirus.  EPA-EFE/-  HANDOUT EDITORIAL USE ONLY/NO SALES
Á Vall d'Hebron sjúkrahúsinu í Barselóna hefur rúmum fyrir þá sem hafa veikst af COVID-19 verið fjölgað til muna. Mynd: EPA-EFE - EFE
Næstum 308.000 ný kórónuveirusmit greindust í heiminum síðasta sólarhringinn, samkvæmt upplýsingum frá Alþjóðaheilbrigðismálastofnuninni. Svo mörg smit hafa aldrei áður greinst á einum sólarhring. Flest smit greindust á Indlandi, í Bandaríkjunum og í Brasilíu.
 

Tilkynnt var um rúmlega 5.500 ný dauðsföll í heiminum af völdum veirunnar á síðasta sólarhringnum en alls hafa nú næstum 917.500 látið lífið úr COVID-19. 

 

Evrópuríki eiga í vök að verjast

Smitum hefur fjölgað á ógnarhraða í Evrópu á síðustu vikum, sérstaklega í Frakklandi og á Spáni þar sem þeim fjölgar nú meira á degi hverjum en þegar fyrri bylgja faraldursins stóð sem hæst í vor.

 

Nýlega tók einnig að hraða á útbreiðslu veirunnar í Bretlandi en þar tóku víða gildi hertar samkomutakmarkanir, en samkvæmt þeim mega aðeins sex koma saman.

 

Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin hefur varað við því að dauðsföllum af völdum faraldursins fjölgi hratt í Evrópu í október og nóvember. Breska blaðið The Guardian hefur eftir Hans Kluge, yfirmanni Evrópudeildar Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar, að ástandið versni á næstu vikum:  „Þetta verður erfiðara. Í október og nóvember verða fleiri dauðsföll. Ég veit að þjóðir vilja ekki fá þessar vondu fréttir og bjarta hliðin er sú að faraldurinn mun líða undir lok á einhverjum tímapunkti.“

Útgöngubann í Ísrael

Yfirvöld í Ísrael hafa tilkynnt um að hertar samkomutakmarkanir, sem svipar til útgöngubanns, taki gildi á föstudag til að hefta útbreiðslu faraldursins. Ísrael er fyrsta ríkið til að ráðast í svo harðar aðgerðir í annað sinn. Benjamin Netanyahu forsætisráðherra segir að ákvörðunin byggi á ráðleggingum frá sérfræðingum í sérstakri nefnd um faraldurinn.

Skólum og verslunarmiðstöðvum verður lokað en ekki matvöruverslunum og apótekum.  Landsmenn mega ekki fara lengra en 500 metra frá heimili sínu og samkomutakmarkanir miðast við 10 manns innandyra en 20 manns utanhúss.

hildurmj's picture
Hildur Margrét Jóhannsdóttir
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi