Athugið þessi frétt er meira en 8 mánaða gömul.

Kirkjuráð samþykkir tilboð í Laugaveg 31

14.09.2020 - 19:45
Mynd með færslu
 Mynd: Kirkjan.is - RÚV
Kirkjuráð hefur samþykkt tilboð í Laugaveg 31 sem var húsnæði biskupsstofu. Samkvæmt upplýsingum fréttastofu eru ákveðnir fyrirvarar á tilboðinu, meðal annars um fjármögnum og það skýrist síðar í þessum mánuði hvort af verður. Ásett verð á eignina er 570 milljónir en húsnæðið er 1.540 fermetrar. Ekki fengust upplýsingar um hver gerði tilboðið sem kirkjuráð samþykkti.. 

Kirkjan hefur lengi reynt að selja Laugaveg 31. Fyrir þremur árum bárust nokkuð tilboð en þeim var öllum hafnað, meðal annars staðgreiðslutilboði frá M3 Capital ehf. 

Kirkjuráð klofnaði reyndar í afstöðu sinni þá. Þrír greiddu atkvæði með því að hafna tilboðinu, einn sat hjá en kirkjuráðsfulltrúinn Stefán Magnússon greiddi atkvæði á móti og vildi selja það. „Það tilboð sem var hæst var mjög ásættanlegt, gott og ástæða til að taka því,“ sagði Stefán í samtali við Fréttablaðið.

Síðasta haust var öll starfsemi biskupsstofu síðan flutt yfir í Katrínartún og þar með var endanlega ljóst að húsið yrði selt.  „Ákvörðunin um að fara er af ýmsum ástæðum tek­in. Þessi hluti borg­ar­inn­ar hef­ur breyst mjög mikið á þess­um tíma,“ hafði mbl.is eftir Guðmundi Þór Guðmundssyni, skrifstofustjóra hjá biskupsstofu.

Í lok janúar greindi Fréttablaðið síðan var frá því að allir kirkjuráðsmenn hefðu samþykkt að setja húsið á sölu nema Agnes Sigurðardóttir, biskup, sem er forseti kirkjuráðs. 

Nokkrum dögum síðar var húsið auglýst til sölu. Það er teiknað af Einari Erlendssyni, húsameistara fyrir Martein Einarsson, kaupmann.  Það þótti óvenju veglegt en á svölunum eru upphleyptar myndir af gríska guðinu Hermesi.  Verslunin hætti árið 1965 og áður en biskupsstofa flutti inn voru þar seld teppi og rekinn banki. 

freyrgigja's picture
Freyr Gígja Gunnarsson
Fréttastofa RÚV