Athugið þessi frétt er meira en 9 mánaða gömul.

Kannski hægt að finna lífverur á Venusi

14.09.2020 - 17:43
Mynd: RÚV/Þór Ægisson / RÚV/Þór Ægisson
Gastegund sem heitir fosfín hefur fundist í skýjunum í kringum reikistjörnuna Venus. Það þýðir að kannski er hægt að finna lífverur á Venusi.

Fosfín finnst líka á jörðinni. Það kemur frá örverum og svo verður það til í iðnaði. Örverur er agnarsmáar lífverur. Sævar Helgi Bragason, Stjörnu-Sævar, segir að þetta sé mjög spennandi uppgötvun. Meira að segja ein sú merkilegasta sem gerð hefur verið.

Margir vona að það sé líf á öðrum hnöttum. Mikið hefur til dæmis verið leitað að lífi á Mars en það hefur ekki fundist.

Sævar segir að það sé 500 stiga hiti á Venusi. Hún er næst jörðinni af reikistjörnunum. Hún er álíka stór og jörðin og mjög lík henni. Stjörnufræðingar vita að einu sinni var sjór á Venusi. Hann hefur gufað upp og orðið að skýjum þegar hitinn hækkaði. Örverurnar geta þá hafa farið upp í skýin. Þess vegna getur verið að það sé líf í skýjunum yfir Venusi.

Vísindamenn hafa aldrei áður fundið efni sem lífverur gefa frá sér úti í geimnum. Nú þarf að rannsaka Venus betur og finna út hvort fosfínið er frá lífverum.

Þótt Venus sé næst jörðinni er hún mjög langt í burtu og enginn hefur farið þangað. Stjörnufræðingar nota stór loftnet til að rannsaka hvaða efni finnast í lofthjúpi Venusar. Þannig fannst fosfínið alveg óvænt.

Sævar segir: „Ef þetta kemur frá örverum þá erum við að tala um eina stærstu uppgötvun sögunnar. Þá erum við loksins búin að fá svar við spurningunni sem mig langar mest til að fá svar við, erum við ein? Ef svarið er nei þá get ég dáið glaður.“ 

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV/Þór Ægisson

Ein stærsta uppgötvun sögunnar

„Þegar við vonum að eitthvað sé satt þurfum við að vera sérstaklega varkár að plata okkur ekki sjálf,“ segir Sævar. Þess vegna fara vísindamenn mjög varlega og segja ekki að það sé í raun og veru líf á Venusi. „Við vitum samt innst inni að lífskýringin er bara hreint ekkert ósennileg.“ 

Hann vonar líka að nú verði reynt að komast til Venusar. 

„Ef við sendum gervitungl til Venusar í framtíðinni, einhvers konar loftbelgi, þá fáum við vonandi staðfest að um örverur er að ræða, þá höfum við bara gert eina stærstu uppgötvun sögunnar,“ segir Sævar Helgi.

Birta Björnsdóttir
Fréttastofa RÚV
annathr's picture
Anna Sigríður Þráinsdóttir
málfarsráðunautur