Jónsi krefst þess að málinu verði vísað frá

Mynd með færslu
 Mynd: Freyr Gígja - RÚV
Jón Þór Birgisson, eða Jónsi, söngvari hljómsveitarinnar Sigur Rósar, krefst þess að ákæru héraðssaksóknara gegn honum vegna meintra 146 milljóna króna skattsvika í tengslum við félag hans Frakk, verði vísað frá. Bjarnfreður Ólafsson, lögmaður Jóns Þórs, og Ásmunda Björg Baldursdóttir saksóknari tókust á um frávísunarkröfuna í Héraðsdómi Reykjavíkur í morgun.

Sagði rannsóknina ólögmæta og ákæruna óskýra 

Söngvarinn Jón Þór er ákærður ásamt endurskoðanda sínum fyrir skattsvik í tengslum við samlagsfélagið Frakk. Lögmaður Jóns Þórs hélt því fram í morgun að rannsókn málsins hefði verið ólögmæt og gæti því ekki verið grundvöllur ákæru, og að bráðabirgðaskýrsla sem skattrannsóknarstjóri gaf út vegna málsins væri fordæmalaus og skorti lagalegan grundvöll. Þá sagði hann ákærða hafa haft réttmætar væntingar um að málinu hefði verið lokið af hálfu skattrannsóknarstjóra í desember árið 2017. Ákæran væri óskýr og uppfyllti ekki skilyrði um meðferð skattamála.

Sagði Jón Þór ekki hafa formlega stöðu hjá félaginu

Hann lagði áherslu á að Jón Þór hefði enga formlega stöðu hjá félaginu, væri hvorki stjórnarmaður né framkvæmdastjóri félagsins, og ætti því ekki að bera refsiábyrgð í málinu. Réttur Jóns til að andmæla hefði ekki verið virtur og að brotið hefði verið gegn rétti hans til að varpa ekki á sig sök.

Má ekki líta fram hjá sögu málsins

Saksóknari hafnaði málsástæðum verjanda með öllu og krafðist þess að málið sætti efnismeðferð fyrir dómi. Hún sagði ótækt að halda því fram að Jón Þór hefði haft réttmætar væntingar um að málinu væri lokið árið 2017, enda hefði legið fyrir að ríkisskattstjóri hefði þá ekki tekið ákvörðun um hvernig skattskilum félagsins ætti að vera háttað. Hún sagði rangt að bráðabirgðaskýrslan væri eini grundvöllur ákærunnar, ekki mætti líta fram hjá sögu málsins.

Umfangsmikil brot – vantaldar tekjur upp á 700 milljónir

Ásmunda sagði ljóst að brotin væru umfangsmikil; félagið Frakkur hefði annars vegar ekki skilað skattframtali og hins vegar skilað röngu framtali. Vantaldar tekjur félagsins væru um 700 milljónir króna. Þá lægju fyrir tengsl hins ákærða við félagið; hann væri eigandi þess og ábyrgðarmaður og gæti því ekki firrt sig ábyrgð. Þá sagði hún fordæmi fyrir því að bráðabirgðaskýrslur sem þessar væru gefnar út. 

hildurmj's picture
Hildur Margrét Jóhannsdóttir
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi