Athugið þessi frétt er meira en 9 mánaða gömul.

Jóhanna Seljan - Seljan

Mynd: Jóhanna Seljan / Jóhanna Seljan

Jóhanna Seljan - Seljan

14.09.2020 - 14:26

Höfundar

Jóhanna Seljan er ættuð frá Mývatnssveit og Reyðarfirði og starfar sem verkefnastjóri hjá Menningarstofu Fjarðabyggðar. Hún gaf út sína fyrstu sólóplötu nýverið eftir að hafa gengið með þann draum í maganum í 12 ár.

Síðan í framhaldsskóla hefur Jóhanna sungið með ótal hljómsveitum, lengst af með kvennasöngsveitinni Fjarðadætrum og The Borrowed Brass Blues Band. Þegar hún var aðeins átta ára var hún farin að semja ljóð og texta en það hefur, ásamt söngnum, verið hennar ástríða í áranna rás. Hún hóf að semja lög um tvítugt og árið 2017 náði lag eftir hana öðru sæti í Jólalagasamkeppni Rásar 2.

Á plötunni Seljan eru níu lög, átta frumsamin og eitt tökulag með Helga og Hljóðfæraleikurunum. Platan var tekin upp í apríl á þessu ári í Stúdíó Síló á Stöðvarfirði í hópi frábærra tónlistarmanna. Birgir Baldursson leikur á trommur, Jón Hafliði Sigurjónsson á bassa, Jón Hilmar Kárason á gítar og Kjartan Valdemarsson á píanó. Fjarðadætur syngja bakraddir og Garðar Eðvaldsson stýrði upptökum, sá um hljóðblöndun og tónjöfnun.

Platan var lengi að verða að veruleika, meðal annars vegna þess að Jóhanna spilar ekki á hljóðfæri og les ekki nótur. Langstærsta áskorunin var að koma lögunum niður á blað en það tókst henni að lokum með aðstoð góðra vina og dágóðum slatta af þrjósku. Textarnir fjalla um tilfinningar á borð við eftirsjá, einmanaleika, von og ást.

Seljan er plata vikunnar á Rás 2 og fer í loftið í heild sinni eftir 10-fréttir í kvöld á Rás 2 ásamt kynningum Jóhönnu á tilurð lagana auk þess sem hún er aðgengileg hér að ofan.

Mynd með færslu
Jóhanna Seljan - Seljan