
Jarðskjálfti 3,4 að stærð – 17.721 skjálfti á svæðinu
Þetta er stærsti skjálftinn sem mælst hefur á Tjörnesbrotabeltinu í rúman mánuð. Nokkrir minni eftirskjálftar hafa fylgt á eftir, sá stærsti þeirra 1,9 að stærð. Tjörnesbrotabeltið er annað tveggja þverbrotabelta hér á landi og tengir suðurenda Kolbeinseyjarhryggjar við norðurgosbeltið.
Einar Hjörleifsson, náttúruvársérfræðingur á Veðurstofu Íslands, segir að nokkuð sé að draga úr hrinunni. Skjálftum fækkað og þeir séu vægari. „Síðast mældist skjálfti yfir þremur að stærð 8. ágúst. Hann var 3,7 og annar mældist sama dag sem var 4,5.“
Sjálfvirkir jarðskjálftamælar hafi numið 17.721 skjálfta síðan hrinan hófst. Þar af hafi starfsfólk Veðurstofunnar yfirfarið 7.500. „Þetta er frekar stór og kröftug jarðskjálftahrina, sú öflugasta á þessum slóðum í 40 ár,“ segir Einar.