Athugið þessi frétt er meira en 6 mánaða gömul.

Íbúar hvattir til að bjóða sig fram í heimastjórnir

14.09.2020 - 09:47
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV - Fjögur sveitarfélög á Austur
Nú er aðeins tæp vika þar til kosið verður til sveitarstjórnar í nýju sameinuðu sveitarfélagi á Austurlandi. Um leið hefst nýstárleg tilraun með fjórar heimastjórnir en segja má að allir íbúar með kosningarétt séu í framboði til þeirra. Formaður yfirkjörstjórnar hvetur áhugasama til að gefa sig fram.

Íbúar á Borgarfirði eystra, Djúpavogi, Fljótsdalshéraði og Seyðisfirði samþykktu sameiningu síðasta vetur. Fimm listar eru í framboði til sveitarstjórnar: Austurlistinn, Framsókn, Miðflokkur, Sjálfstæðisflokkur og Vinstri Græn. Óhætt er að segja að ákvörðun um að fjórar heimastjórnir fari með ákveðin málefni á hverjum stað hafi unnið sameiningunni fylgis á kynningarfundum. Þrír sitja í heimastjórn á hverjum stað, einn þeirra úr röðum sveitarstjórnar en hinir tveir valdir af íbúum og tveir til vara.

Þurfa að þekkja heimilisfang frambjóðanda til heimastjórnar

„Sveitarstjórnarkosninguna kunna menn utan að, að kjósa þar, en í heimastjórninni þá þurfa menn að mæta á kjörstað búnir að ákveða sig hvern þeir ætla að tilnefna í heimastjórn og hvert heimilisfang hans er. Það er mjög mikilvægt að þegar menn koma í kjörklefann þá séu menn með þetta á hreinu því annars verða svo miklar tafir, ef menn ætla að fara að byrja að fletta íbúaskránni þegar þeir eru komnir í kjörklefann. Það gengur ekki upp þannig að þetta þurfa menn að kynna sér mjög vel fyrir fram. En þetta er bara eitt nafn og eitt heimilisfang. Og þessar heimastjórnir hafa nokkur völd á hverjum stað og þetta er til að færa valdið í heimasveitirnar eins og við getum sagt,“ segir Bjarni G. Björgvinsson, formaður yfirkjörstjórnar.

Fimm frambjóðendur komnir á blað

Heimastjórnir afgreiða deiliskipulag, veita umsagnir um leyfi, sinna hlutverki náttúruverndarnefndar, halda utan um menningarstarf, fjallskil og fleira og eru í beinu samtali við bæjarstjórn. Í morgun höfðu fimm opinberað áhuga sinn á sæti í heimastjórnum á vefsíðu sameiningarinnar, svausturland.is. Í hádeginu fékk fréttastofa upplýsingar um að sjötta framboðið væri á leið inn á vefinn. Þá yrði komið eitt frá Borgarfirði eystra, eitt frá Djúpavogi, þrjú af Fljótsdalshéraði og eitt frá Seyðisfirði. Á síðunni getur getur fólk kynnt sér embættið og áhugasamir fá þar pláss til að kynna sig.

Kjósendur geta eins og áður segir valið hvern sem er í heimastjórn á sínu svæði. Viðkomandi þarf ekki að hafa stigið fram opinberlega og ekkert hindrar að sami einstaklingur sé kosinn bæði í sveitarstjórn og heimastjórn. Heimstjórnir eru tilraun til tíu ára. Sveitarstjórn getur ekki afnumið heimastjórnir. 

„Það er bara vika til stefnu. Það er um gera að nýta sér þessa leið í þessu ástandi, að fara inn á síðuna svausturland.is. Þar geta menn kynnt sig og kjósendur geta svo farið inn og séð hverjir hafa áhuga og þetta er nýlunda í sveitarstjórnarmálum, þessi heimastjórn. Þess vegna er mjög mikilvægt bæði að þetta takist vel í kosningunni og svo eins í framhaldinu að það takist vel að slípa saman verksvið heimastjórnar og bæjarstjórnar,“ segir Bjarni G. Björgvinsson, formaður yfirkjörstjórnar.

Horfa á frétt