Hámu á Háskólatorgi lokað eftir staðfest COVID-19 smit

14.09.2020 - 22:52
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
COVID-19 smit hefur verið staðfest í Hámu á Háskólatorgi. Starfsfólk fer því í sóttkví og sýnatöku auk þess sem starfseminni í Hámu og á salatbar á Háskólatorgi er lokað meðan beðið er eftir niðurstöðum úr sýnatöku. Háma á Háskólatorgi er stærsti matsölustaðurinn á háskólasvæðinu og þar er allur heitur matur eldaður fyrir matsölur og kaffistofur stúdenta sem ganga undir Hámunafninu. Þar verður því hvorki súpa né heitur matur í boði.

Bréf þessa efnis var sent út á nemendur við Háskóla Íslands í kvöld. Þar segir að gripið hafi verið til allra nauðsynlegra ráðstafana til að hindra útbreiðslu COVID-19 veikinnar í samráði við smitrakningateymi almannavarna og sóttvarnalæknis. 

Stúdentakjallarinn verður opinn og sömu sögu er að segja af Hámu í Tæknigarði, Odda, Öskju, Læknagarði, Eirbergi, Þjóðarbókhlöðunni og Stakkahlíð. Sem fyrr segir verður heitur matur og súpa ekki í boði í matsölum Hámu fyrr en aftur verður opnað á Háskólatorgi.

Fyrr í dag var greint frá því að Jón Atli Benediktsson rektor og tveir aðrir starfsmenn í aðalbyggingu Háskóla Íslands fara í sóttkví vegna smits sem var staðfest í aðalbyggingunni um helgina.

Brynjólfur Þór Guðmundsson
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi