Hættulegra að segja þessa sögu eftir #metoo-bylgjuna

Mynd: Eyþór Árnason / Þjóðleikhúsið

Hættulegra að segja þessa sögu eftir #metoo-bylgjuna

14.09.2020 - 16:04

Höfundar

„Til að fá ekki ofboðslega lélega dóma frá kvenkrítíkerum ættum við að taka fulla afstöðu með konunni. En mér finnst leikritið ekki skrifað þannig,“ segir Hilmir Snær Guðnason leikari og leikstjóri. Til stóð að hann myndi taka í leikstjórnartaumana en bregður sér í staðinn í hlutverk háskólakennarans í leikritinu Oleanna sem frumsýnt verður í Borgarleikhúsinu í vikunni.

Loks stendur til að ljúka upp dyrum Borgarleikhússins og bjóða áhorfendur velkomna á ný eftir að skellt var í lás þar í vor vegna heimsfaraldurs. Leikritið Oleanna verður frumsýnt 18. september á Nýja sviðinu með þeim Hilmi Snæ Guðnasyni og Völu Kristínu Eiríksdóttur í aðalhlutverkum. Upphaflega stóð til að Ólafur Darri léki á móti Völu Kristínu en á meðan húsið var lokað og óvissuástand ríkti þurfti hann að hverfa til annarra verkefna og segja sig frá hlutverkinu. Hilmir Snær, sem hafði ætlað að leikstýra sýningunni, hljóp þá í skarðið í hans stað og Gunnar Gunnsteinsson settist í leikstjórastólinn. „Við þurftum að hætta þegar það voru tvær vikur í frumsýningu, þá kom COVID og það þurfti að loka sjoppunni,“ segir Hilmir Snær sem var að vonum svekktur að fá ekki að sýna afraksturinn í vor. „Þegar ljóst var að Darri væri kominn í önnur verkefni var ég beðinn um að taka við þessu. Ég varð við þeirri beiðni en gat ekki leikstýrt sjálfum mér.“

Leikritið skrifaði ameríska leikskáldið David Mamet árið 1992 en Vala Kristín segir að það tali ótrúlega vel inn í samtímann. „Þetta fjallar um fólk sem er að berjast við að skilja hvort annað en geta það ekki því þau búa við svo ólíkar forsendur,“ segir hún og Hilmir Snær tekur undir. „Það er prófessorinn og nemandinn, munurinn á milli kynjanna og aldursbil. Þetta snýst um hver hefur völd yfir öðrum og kynslóðabilið, átök kvenna og karla, nemenda og kennara.“

Mynd með færslu
 Mynd: Þór Ægisson - RÚV
Vala segist sjálf stundum vera ósammála ungu konunni sem hún leikur

Gunnar segir að inntak verksins eigi algjörlega við í dag en á sama tíma sé umfjöllunarefnið orðið jafnvel enn viðkvæmara og eldfimara en áður var og nefnir hann til dæmis #metoo-bylgjuna og áhrif hennar á samfélagið og samskipti kynjanna. „Þegar verkið er skrifað hefur eitthvað gerst í kvenréttindabáráttunni en það sem við sitjum uppi með núna er að við erum á enn viðkvæmari tímum,“ segir Gunnar sem telur að auðveldara hafi verið að sýna verkið þegar það var sett á svið í Þjóðleikhúsin 1995 en í dag. „Og það er það sem er spennandi við þetta. Það er pínu hættulegt.“ Hilmir Snær segir í því samhengi að hópurinn hafi lagt sig fram við að taka ekki afstöðu með öðru þeirra heldur reyna að koma sjónarmiðum beggja á framfæri. „Leikritið er skrifað þannig að þú ferð á milli þeirra í samstöðu, skilur þau og heldur með á víxl. Við höfum barist við að halda þessu jafnvægi.“

Vala segist sjálf hafa sveiflast í afstöðu sinni í leikritinu og að stundum hafi hún átt erfitt með að halda með sínum eigin karakter. Hilmir segir að það sé einmitt markmiðið. „Það eru tveir karlleikstjórar og því ættum við samkvæmt öllu, til að fá ekki ofboðslega lélega dóma frá kvenkrítíkerum, að taka fulla afstöðu með konunni en mér finnst leikritið ekki skrifað þannig,“ segir Hilmir kankvís. „Þetta fer á báða kanta á sama peningnum.“

Þegar fólk yfirgefur salinn í hléi vonar Gunnar að þau séu nokkuð ringluð en hugsi. „Svo þegar þú kemur inn eftir hlé verða ákveðin og stór hvörf. Þá fer maskína í gang sem á eftir að skila mjög heitum umræðum,“ segir leikstjórinn sem segist vona að feðgin hópist á sýninguna. „Feður munu spegla sig hundrað prósent í þessari sýningu,“ segir hann.

Rætt var við aðstandendur sýningarinnar Oleanna í Mannlega þættinum á Rás 1.

Tengdar fréttir

Stjórnmál

„Leyfum við stjórnmálamönnum að vera andlega veikir?“

Leiklist

„Ég set beintengingu milli slagsmálanna og ástandsins“