Athugið þessi frétt er meira en 5 mánaða gömul.

Gagnrýnir Pútín harðlega fyrir fundinn með Lukasjenko

14.09.2020 - 19:43
Mynd: EPA-EFE / PAP
Alexander Lukasjenko, forseti Hvíta-Rússlands átti fjögurra tíma langan fund með Vladimir Pútín, forseta Rússlands, í borginni Sochi í Rússlandi í dag. Svetlana Tikanovskya, fyrrum forsetaframbjóðandi og leiðtogi stjórnarandstöðunnar, gagnrýndi Rússlandsforseta harðlega fyrir að funda með Lukasjenko, sem ekki sé álitinn réttkjörinn forseti.

Sjá einnig: Konum hent inn í lögreglubíla í Minsk

Svetlana Tikanovskaya, leiðtogi stjórnarandstæðinga, var harðorð í yfirlýsingu í dag og sagði að Pútín væri nær að ræða við fólkið - heldur en að funda með valdaræningja. Þá sagði hún að allt það sem forsetarnir hefðu komist að samkomulagi um í dag yrði endurskoðað þegar réttmætir valdhafar tækju við í Hvíta-Rússlandi.

Á dagskrá fundarins voru umræður um að dýpka samband ríkjanna á ýmsum sviðum; svo sem í hernaði, viðskiptum, orku og menningu. 

epa08668812 A handout still image taken from a a handout video footage released by the Russian Presidential Press and Information Office on the official website of the Russian President kremlin.ru shows Belarus President Alexander Lukashenko (L) and Russian President Vladimir Putin (R) during their meeting in the Black sea resort of Sochi, Russia, 14 September 2020. The Belarusian President is on a working visit in Russia.  EPA-EFE/KREMLIN HANDOUT  HANDOUT EDITORIAL USE ONLY/NO SALES
 Mynd: EPA-EFE - KREMLIN

Pútín tilkynnti eftir fundinn að Rússar ætli að lána Hvít-Rússum einn og hálfan milljarð Bandaríkjadala, sem samsvarar rúmum tvö hundruð milljörðum íslenskra króna. Lukasjenko þakkaði Rússum stuðninginn á erfiðum tímum. Þetta var fyrsti fundur forsetanna eftir að mótmælin í Hvíta-Rússlandi brutust út. 

Ræddu um fyrirhugaðar stjórnarskrárbreytingar

Dmitry Peskov, talsmaður rússneskra stjórnvalda, greindi fjölmiðlum frá því í dag, að Lukasjenko hafi staðfest í samtali sínu við Putin að hann væri að undirbúa stjórnarskrárbreytingar í Hvíta-Rússlandi. Hann gaf þó ekki neinar upplýsingar um smáatriðin í þeim efnum. Eftir að mótmælin brutust út eftir forsetakosningarnar 9. ágúst hefur Lukashenko nefnt þann möguleika að gera breytingar á stjórnarskrá svo að hægt verði að efna til næstu forsetakosninga fyrr en áætlað var.  

Ekkert lát er á mótmælum í Hvíta-Rússlandi eftir umdeildar forsetakosningar fyrir fimm vikum. Lögregla hefur tekið hart á mótmælendum og voru á áttunda hundrað handtekin í gær.