Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Fleiri konur vilja koma í skimun

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Álag hefur aukist hjá Leitarstöð Krabbameinsfélags Íslands undanfarna daga og vikur eftir að málefni félagsins komust til umfjöllunar. Þetta segir Sigríður Sólan Guðlaugsdóttir upplýsingafulltrúi Krabbameinsfélagsins. Hún segir að þegar málefni Leitarstöðvarinnar séu til umræðu aukist ásókn kvenna í skimun.

„Svo virðist sem konur dragi að panta tíma eftir að þær fá boðsbréf í skimun og þess vegna gæti þessi umfjöllun virkað sem áminning,“ segir Sigríður. 

Hún segir að í síðustu viku hafi verið tveggja vikna bið eftir leghálsskimun sem sé aðeins lengri tími en vanalega. Um fjögurra vikna bið sé eftir skimun eftir krabbameini í brjóstum. „Það er verið að vinna í að bæta við tímum til að koma til móts við þetta aukna álag,“ segir Sigríður.

Að minnsta kosti 65 konur fengu ranga niðurstöðu um frumubreytingar í leghálsskoðun hjá Krabbameinsfélaginu árið 2018 og er það rakið til mistaka starfsmanns sem uppgötvuðust í sumar eftir að kona greindist með ólæknandi krabbamein. Lögmaður konunnar hefur fleiri mál af þessu tagi til meðferðar og segir vísbendingar um að brotalamir hafi verið á skimunum í mörg ár.