Athugið þessi frétt er meira en 8 mánaða gömul.

„Ég held að við komum ekki á morgun í skólann“

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
„Ég fylgdi Rewidu og Abdalla út strætó í dag. Þau voru á leið í Covid-test. Ég kvaddi þau með þeim orðum að við myndum sjást aftur á morgun hér í skólanum.“ Svona hefst facebook-færsla Friðþjófs Helga Karlssonar skólastjóra í Háaleitisskóla Ásbrú. Tvö börn úr sex manna fjölskyldu frá Egyptalandi, sem búsett hefur verið hér á landi í tvö ár, eru á meðal nemenda hans.

„Rewida horfði á mig sorgmæddum augum og sagði ,,Ég held að við komum ekki á morgun í skólann. Mig langar svo mikið til að vera áfram á Íslandi' - á henni mátti sjá að hún var búinn að glata voninni. Ég fylltist reiði vegna þeirrar grimmdar og mannvonsku sem mérr finnst felast í þessum aðgerðum yfirvalda. Aðgerðum sem svo sannarlega brjóta á grundvallarmannréttindum þessara barna,“ skrifar Friðþjófur.

Upphaflega stóð til að yfirvöld myndu sækja börnin í skólann og fara með þau í skimun, en ekki varð af því.

Fjölskyldan sem er foreldrarnir, Dooa og Ibrahim, og börnin fjögur, þau Rewida, Abdalla, Hamza og Mustafa sem eru á aldrinum tveggja til tólf ára komu hingað til lands í ágúst 2018 og sóttu um alþjóðlega vernd. Útlendingastofnun hafnaði umsókninni í júlí í fyrra. Það staðfesti kærunefnd útlendingamála og til stendur að vísa fjölskyldunni úr landi á miðvikudaginn. Þau segja hættulegt að snúa aftur til Egyptalands vegna ofsókna sem þar bíða þeirra vegna pólitískrar þátttöku heimilisföðursins.

 

Facebookfærsla Friðþjófs Helga Karlssonar