Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

„Draumur að feta í fótspor Sigurðar Richter“

14.09.2020 - 17:00
Mynd: RÚV/Þór Ægisson / RÚV/Þór Ægisson
Sjónvarpsþátturinn Nýjasta tækni og vísindi hefur göngu sína á ný í kvöld, eftir um sextán ára hlé. Einn umsjónarmanna þáttarins segir það draumi líkast að fá að feta í fótspor þeirra sem sáum um þáttinn á árum áður.

„Nýjasta tækni og vísindi var uppáhalds sjónvarpsþátturinn minn þegar ég var lítill svo það er algjör draumur að fá að fá að feta í fótspor Sigurðar Richter og Örnólfs Thorlacius og endurvekja þennan þátt,“ þetta segir Sævar Helgi Bragason, einn umsjónarmanna sjónvarpsþáttarins Nýjasta tækni og vísindi, sem hefur göngu sína í Sjónvarpinu í kvöld, eftir nokkurt hlé. 

„Þátturinn hefur ekki verið á dagskrá í sextán ár og löngu kominn tími á almennilegan vísindaþátt í sjónvarpinu,“ segir Sævar Helgi. 

„Draumurinn um að stýra einhvers konar vísindaþætti kviknaði mjög snemma og Sigurður átti alveg pottþétt sinn þátt í því. Svo nú fæ ég þetta stóra ábyrgðarhlutverk að stíga í hans fótspor og það eru býsna stór spor að fylla í en vonandi tekst okkur ágætlega upp og kveikjum meiri áhuga á vísindum og tækni á Íslandi,“ segir Sævar Helgi, en auk hans eru þau Edda Elísabet Magnúsdóttir og Sigmar Guðmundsson umsjónarmenn þáttarins. 

„Í fyrsta þættinum ætlum við að heimsækja til dæmis loftsteinagýg í Arizona, svo ætlum við að fjalla um app sem heitir Sidekick Health og svo ætlum við að heyra í Sigurði sjálfum,“ segir Sævar Helgi. 

Viðtal við Sævar Helga má sjá í spilaranum hér að ofan.  

Hér má svo sjá brot úr þættinum í kvöld þar sem Sigurður H. Richter kemur við sögu. 
 

 

 

Birta Björnsdóttir
Fréttastofa RÚV