Draga á lánalínu ef staðan batnar ekki næsta sumar

14.09.2020 - 20:22
Mynd: Skjáskot / RÚV
Bogi Nils Bogason, forstjóri Icelandair, segist ekki eiga von á því að fé fyrirtækisins klárist og að það þurfi að fara aftur í hlutafjárútboð á næstunni. „Alls ekki,“ svaraði hann aðspurður í Kastljósi í kvöld. Hann sagði að starfsemi fyrirtækisins og greiðslur til lánardrottna tækju mið af áætlunum um minna flug næstu misseri. Hann sagði að ástæða þess að stærsti hluthafi Icelandair virðist ekki ætla að taka þátt í útboðinu væri skortur á lausafé frekar en skortur á tiltrú á fyrirtækinu.

Viðtalið í heild

„Ef hlutirnir fara ekkert að taka við sér næsta sumar þá þurfum við að draga á lánalínuna sem ríkisstjórnin hefur ábyrgst. Sú lína mun þá koma okkur inn á vorið 2022,“ sagði Bogi. Hann sagði að frekar yrði dregið á lánalínur sem ríkið ábyrgist en að farið yrði í annað hlutafjárútboð. Hann kvaðst telja að Ísland verði í kjörstöðu á næstu árum því fólk vilji að faraldri loknum frekar koma til Íslands en fara til stórborga þar sem það lendi í biðröðum. Þá sé útlit fyrir að minna verði um beint flug á breiðþotum milli Evrópu og Ameríku þar sem flogið sé yfir Ísland frekar en millilent þar.

Útlit er fyrir að stærsti hluthafinn í Icelandair, Par Capital, taki ekki þátt í hlutafjárútboðinu. Aðspurður hvaða skilaboð það sendi íslenskum fjárfestum sagði Bogi að það hefði verið mikil viðurkenning fyrir Icelandair að fá Par inn sem fjárfesti í fyrra. Nú væri sá fjárfestir í erfiðri stöðu þar sem hann hefur fjárfest mikið í flugrekstri. „Það er eingöngu vegna þess að þessi sjóður hefur verið að fjárfesta í flugfélögum og ferðaþjónustufyrirtækjum. Staðan hjá þeim fyrirtækjum er mjög slæm og þar af leiðandi er staða sjóðsins væntanlega frekar slæm og lausafjárstaðan ekki góð,“ sagði Bogi. Hann sagði að ef sjóðurinn tekur ekki þátt sé það vegna skorts á lausafé frekar en að hann skorti trú á viðskiptaáætlunum Icelandair.

Bogi sagði að lánardrottnar hefðu ekkert afskrifað og rakti það til þess að veðstaða þeirra hefði verið mjög góð. Hann sagði að ólíkt Norwegian hefðu engar skuldir verið í vanskilum og staðan því öðruvísi. Þar hefðu lánardrottnar þurft að afskrifa skuldir vegna erfiðrar stöðu Norwegian en staða Icelandair hefði verið betri.

Brynjólfur Þór Guðmundsson
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi