Donald Trump og kosningafundir á tímum kórónuveiru

epaselect epa08667297 A Trump supporter shows 4 fingers asking for 4 more years of US President Donald J. Trump's Presidency during to a caravan named 'The Mother of All Caravans' in Miami, Florida, USA, 13 September 2020. The Mother of All Caravans takes place simultaneously across Florida in the cities of Miami, Orlando, Cocoa Beach, Fort Myers and Jacksonville.  EPA-EFE/CRISTOBAL HERRERA-ULASHKEVICH
 Mynd: EPA-EFE - EPA
Þrátt fyrir að kórónuveirufaraldurinn geisi enn í Bandaríkjunum heldur forsetinn Donald Trump ótrauður kosningafundum sínum áfram. Hann hefur verið gagnrýndur talsvert fyrir að tala fyrir framan þéttskipaðan hóp fólks, þar sem fáir bera andlitsgrímur. Val skipuleggjenda fundanna á tónlist fyrir fundinn hefur vakið nokkra furðu, auk þess sem innihald ræðna forsetans hefur verið umdeilt eins og oft áður.

Fjöldafundur hans í gær var haldinn innandyra í borginni Henderson í Nevada, þrátt fyrir viðvarandi bæjaryfirvalda. Fjöldinn inni var miklu meiri en leyfilegur hámarksfjöldi á viðburðum þessa dagana vegna faraldursins. Samkvæmt núgildandi reglum í Nevada mega ekki fleiri en 50 koma saman. Þetta er fyrsti innifundurinn síðan í Tulsa í sumar. Þar tók faraldurinn kipp eftir fund forsetans.

Starfslið framboðs hans vísar allri gagnrýni á bug. Tim Murtaugh, fjölmiðlafulltrúi framboðsins, segir fólk allt eins mega koma saman og hlusta á forsetann eins og að koma tugþúsundum saman til að mótmæla á götum úti eða fara inn í spilavíti.

Fyrsta bylgja kórónuvaraldursins virðist loks í rénun í Bandaríkjunum. Tilfellin í gær voru rétt rúmlega 30 þúsund samkvæmt tölfræðivefnum Worldometers og dauðsföll innan við 400. Alls eru rúmlega 6,7 milljónir búnar að greinast með kórónuveiruna sem veldur COVID-19 í Bandaríkjunum og nærri 200 þúsund látnir af völdum sjúkdómsins. Þrátt fyrir að bæði langflest tilfelli og dauðsföll á heimsvísu séu í Bandaríkjunum stærir forsetinn sig af því opinberlega hversu vel stjórn hans hefur tekið á faraldrinum.

Segist hvergi á förum

Miðað við orð Trumps á fundunum virðist hann ekki á þeim buxunum að yfirgefa Hvíta húsið á næstunni. Hann nefndi á fundi í fyrrakvöld að eina mögulega leiðin fyrir hann til að tapa kosningunum í nóvember sé með svindli Demókrata. Hann hefur ítrekað haldið því fram að stórfellt kosningasvindl verði viðhaft, þá sérstaklega í póstkosningum. Talið er að metfjöldi kjósenda greiði póstatkvæði þetta árið til þess að forðast langar raðir á tímum faraldurs. Trump hefur ekki viljað staðfesta að hann viðurkenni kosningaúrslitin verði niðurstaðan honum ekki í hag.

Ráðleggur Trump að setja á herlög

Roger Stone, fyrrverandi ráðgjafi Trumps sem forsetinn náðaði á dögunum eftir dóm fyrir að ljúga fyrir þingnefnd, hefur komið þeirri hugmynd að forsetanum að setja á herlög í Bandaríkjunum fari svo að hann tapi. Sjálfur viðraði hann þá hugmynd í viðtali að kalla herinn út gegn mótmælendum ef þeir láta á sér kræla eftir kosningar.

Þá er ekki víst að eitt kjörtímabil í viðbót verði Trump nóg. Nokkuð er síðan hann talaði fyrst um að hann eigi skilið fjögur ár til viðbótar við það, vegna framkomu yfirvalda í sinn garð á þessu fyrsta kjörtímabili. Hann hóf fjöldafundinn í Henderson í gær á orðunum: „Við vinnum fjögur ár í viðbót í Hvíta húsinu, og eftir að við vinnum þau biðjum við um fjögur ár til viðbótar, eða svo."

Hinn lánsami sonur

Eigi er það ég
Eigi er það ég
Eigi er ég sonur milljónamærings, ó nei.

Einhvern veginn þannig gæti eitt viðlaga Fortunate Son með Creedence Clearwater Revival hljómað á íslensku. Hví er það ritað hér. Jú, þetta lag hefur verið spilað fyrir síðustu tvo fjöldafundi forsetans. Það hefur vakið furðu margra, þeirra á meðal John Fogerty, höfundar lags og texta. Bloomberg hefur eftir honum að hann skilji ekki hvers vegna Trump vill nota lagið. Forsetinn gæti allt eins verið þessi lánsami sonur sem sungið er um í laginu, fæddur með silfurskeið í hendi. Texti lagsins fjallar um ungan mann sem er svo heppinn að eiga ríka foreldra, og sleppur við að vera sendur til Víetnam með Bandaríkjaher. Trump slapp einmitt við herskyldu vegna meiðsla.

Fogerty sagði í yfirlýsingu á Instagramsíðu sinni að lagið ætti ekki síður við um framferði forsetans þegar hann gekk frá Hvíta húsinu að kirkju við Lafayette-torg í júní. Skemmdarverk voru unnin á kirkjunni í mótmælum daginn áður. Trump hélt á biblíu fyrir framan kirkjuna og lét taka myndir af sér. Fogerty sagði aðgerðir Trumps þann dag í raun endurspegla einstaklinginn sem Fortunate Son gagnrýnir. Lagið hefst á línunum: Sumir eru fæddir til að veifa fánanum, þeir eru rauðir, vítir og bláir, en þegar sveitin spilar Heill sé foringjanum, þá beina þeir byssunni að þér. Fogerty segir það einmitt hafa gerst við Lafayette-torg. Forsetinn notaði alríkislögreglumenn til þess að ryðja brautina að kirkjunni svo hann gæti staðið fyrir framan hana með biblíu.

Fjöldi hljómsveita hefur lýst yfir óánægju sinni með flutning tónlistar sinnar á framboðsfundum forsetans. Meðal þeirra eru Rolling Stones, sem hótuðu að kæra framboðið fyrir að nota lagið You Can't Always Get What You Want í niðurlagi funda.

Róbert Jóhannsson
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi