
Brexit-samningar og samningsrof
Þetta virtist annars allt svo auðvelt í byrjun október fyrir tæpu ári þegar Boris Johnson lagði útgöngusamning sinn fyrir breska þingið. Grípum tækifærið til að virða loforð okkar til bresku þjóðarinnar, virðum Brexit, hespum Brexit af, sagði forsætisráðherra og uppskar mikinn fögnuð þingheims, alla vega hans eiginn þingmanna.
Johnson nú í sömu norður-írsku sporunum og Theresa May
Nú glímir forsætisráðherra hins vegar við sama vandann og forverinn Theresa May, að halda landamærum Norður-Írlands og Írlands opnum. Það var fyrirhafnarlaust með ESB-aðild beggja vegna landamæranna. Þegar annað landið er í ESB og hitt utan eru opin landamæri verulega flókin.
Hnúturinn: að halda opnum landamærum ef ekki semst
Hnúturinn er hvernig sé hægt að tryggja opin landamæri ef ekki semst um það í viðskiptasamningi við ESB eða ef það verður enginn samningur. Umdeilda atriði útgöngusamningsins er þrautavaralausn ef og ef forsendur breytast. May reyndi að sjóða saman flókið fyrirkomulag, sem hún svo féll á. Johnson fór aðra leið, tók hugmynd sem ESB hafði þegar boðið en May hafnað.
Johnson horfist í augu við gerða samninga
Nú horfist Johnson í augu við gerðan hlut, að hann samdi við ESB – og kemst að þeirri niðurstöðu að það sé best að samþykkja lög sem afnemi fyrirkomulagið sem hann ekki aðeins samþykkti heldur taldi sérstakt afrek að ná og fá þingið til að samþykkja. Í nýju stjórnarfrumvarpi um innri markað Bretlands á að tryggja heildstæðan innri markað með því að afturkalla þrautavaralausn útgöngusamningsins.
Allir núlifandi forsætisráðherrar fordæma samningsbrot
Allir breskir núlifandi forsætisráðherrar hafa fordæmt þetta, nú síðast fyrrum leiðtogi Íhaldsflokksins, David Cameron. Þar sem verið sé að semja við ESB hafi hann í fyrstu ekki viljað blanda sér í umræðurnar. Nú getur hann ekki lengur á sér setið. Það sé algjörlega síðasta úrræði að samþykkja lög sem brjóti alþjóðalög.
Óánægðir stjórnarþingmenn, líka Brexit-sinnar
Í viðbót hafa ýmsir stjórnarþingmenn sagt að þeir geti ekki stutt frumvarpið. Það versta fyrir Johnson er að í þeim hópi eru líka einlægir Brexit-sinnar, líka áður svo dyggir stuðningsmenn hans. Forsætisráðherra getur því ekki sagt að þetta séu bara súrir Brexit-andstæðingar.
Verkamannaflokkurinn heldur sig til hlés
En hvað segir Verkamannaflokkurinn? Ja, hann segir ekki mikið. Að hluta, af því sem fyrr þá vill flokksforystan og ekki síst nýi og varkári leiðtoginn Keir Starmer veita íhaldsþingmönnum svigrúm til að viðra alla þá óánægju sem þeim hugnast. Leyfa stjórnarflokknum að glefsa í hæla forsætisráðherra án þess að þurfa að finnast að þeir séu að ganga erinda Verkamannaflokksins.
Stuttaralegur Starmer
Strax þegar spurðist í síðustu viku að stjórnin hyggðist fara þessa leið sagði Starmer að það væri forkastanlegt að brjóta gerða samninga og alþjóðalög. Málið bar líka á góma í útvarpsþætti í morgun þar sem Starmer sat fyrir svörum. Svarið var stuttaralegt, hans flokkur væri ekki hlynntur því að brjóta alþjóðalög, ganga bak orða sinna á alþjóðasviðinu og það ættu Bretar ekki að gera.
Nokkrir þingmenn úr öllum flokkum eru að vinna í breytingartillögu við nýja frumvarpið. Óljóst um útkomuna en slík tillaga gæti gefið stjórninni færi á að hörfa án þess að viðurkenna viðsnúning.
Brexit-uppákoma í viðbót við veiruværingar
Þessi Brexit-uppákoma bætist við vaxandi gremju í Íhaldsflokknum vegna veiruaðgerða stjórnarinnar. Það er jafnvel orðrómur um að þingmenn séu farnir að skila inn bréfum til þingmannsins Graham Brady, sem heldur utan um leiðtogakjör flokksins. Aðeins orðrómur en til merkis um hitasóttarkennt ástandið. Johnson ætlaði að láta öðrum ráðherra eftir að mæla fyrir frumvarpinu í þinginu í dag en skipti um skoðun á síðustu stundu, væntanlega til að ljá frumvarpinu þunga.
Evrópumálin: viðvarandi breskt vandamál
Enn og aftur – Brexit og Evrópumálin skapaa deilur í breskum stjórnmálum og í Íhaldsflokknum, viðvarandi ástand síðan sumarið 2016 og reyndar alveg síðan Bretar gengu í Evrópusamvinnuna 1973.