Athugið þessi frétt er meira en 6 mánaða gömul.

Álftafjörður einhver alversti staður fyrir grindhvali

14.09.2020 - 16:13
Mynd: Elsa María Guðlaugs Drífudót / RÚV
Allir grindhvalirnir tíu sem ráku inn í Álftafjörð á Snæfellsnesi um helgina eru nú dauðir. Hvalurinn sem bjargað var úr fjörunni í gærkvöldi fannst dauður í fjarðarmynninu eftir hádegi í dag.

Náttúrustofu Vesturlands barst tilkynning frá lögreglunni um hvali í vandræðum við austanverðan fjörðinn um miðjan dag í gær. Tveir líffræðingar frá náttúrustofu fóru á vettvang og reyndu að bjarga hvölunum. Þegar að var komið var meirihluti hvalanna þegar dauður. Í hvalahópnum var mjög ungur kálfur.

Jón Einar Jónsson, hjá rannsóknarsetri Háskóla Íslands á Snæfellsnesi, segir ekki gott að segja hvað hafi rekið hvalina inn í fjörðinn. „Það er líklegast að þeir hafi villst af leið og jafnvel verið í vandræðum, kannski lent í erfiðleikum með kálfinn. Þetta er sennilega alversti staður fyrir grindhvali sem hægt er að ímynda sér því að þetta er örgrunnt og vatnsdýpið bara nokkrir metrar á stórstraumsflóði.“

Uppfært klukkan 17:47 - Tíundi hvalurinn fannst dauður síðdegis. Nafn Jóns Einars var rangt ritað í fyrri útgáfu fréttarinnar. Beðist er velvirðingar á þeim mistökum.

birgirthh's picture
Birgir Þór Harðarson
Fréttastofa RÚV