Athugið þessi frétt er meira en 7 mánaða gömul.

90 prósent myndu líklega þiggja bólusetningu við COVID

14.09.2020 - 20:40
Skjáskot
 Mynd: RÚV
Níu af hverjum tíu landsmönnum myndi örugglega eða líklega þiggja bólusetningu vegna COVID-19 þegar hún stendur til boða. Þetta kemur fram í nýjum Þjóðarpúlsi Gallup. Sex prósent sögðust ekki eða líklega ekki myndu þiggja bólusetningu. Fjögur prósent taka ekki afstöðu.

Langalgengasta ástæðan fyrir því að fólk segist ekki eða líklega ekki láta bólusetja sig er sú að það vilji bíða eftir að reynsla komi á bólusetninguna og mögulegar aukaverkanir. Lítill hluti sagðist almennt vera á móti bólusetningum og nokkrir sögðust ekki þiggja bólusetningu þar sem þeir hefðu þegar fengið sjúkdóminn eða mælst með mótefni. 

Nokkur munur er á afstöðu fólks til bólusetningar gegn COVID-19 eftir stjórnmálaskoðunum. 98 prósent þeirra sem styðja Vinstri græn myndu örugglega eða líklega þiggja bólusetningu og 94 prósent þeirra sem styðja Framsókn. Engrar andstöðu við bólusetningu gætir meðal stuðningsmanna þessara flokka. Í kringum 90 prósent stuðningsmanna annarra flokka myndu örugglega eða líklega þiggja bóluefni.

Mest er andstaðan við bólusetningu meðal þeirra sem segjast myndu skila auðu eða ekki kjósa, sextán prósent þeirra myndu líklega eða örugglega hafna bólusetningu. Níu prósent Pírata og jafn hátt hlutfall sem segist myndu kjósa aðra flokka eru efins um eða andvíg því að láta bólusetja sig.

Að því er fram kemur í Þjóðarpúlsi Gallup segjast um 75 prósent í 27 löndum í nýlegum könnunum myndu þiggja bólusetningu. Aðeins Kínverjar eru hlynntari bólusetningu en Íslendingar. 97 prósent þeirra myndu örugglega eða líklega láta bólusetja sig.