Virði hluta vanáætlað en óvissan samt „gríðarleg“

Mynd: Bjarni Rúnarsson / RÚV
Eigið fé Icelandair hefur minnkað um sem nemur 50 milljörðum króna frá áramótum. Greiningarfyrirtæki telur virði hluta í félaginu tvöfalt hærra en útboðsgengið, en óvissan sé mikil. Mikil hagræðing hafi náðst með nýjum kjarasamningum, en samkeppni geti gert félaginu erfitt fyrir að ná þeim tekjum sem það stefnir að.

Hlutafjárútboð Icelandair hefst á miðvikudaginn kemur og stendur til fimmtudags. Markmiðið er að auka hlutafé í félaginu um 20 til 23 milljarða króna.

Þjónustu- og ráðgjafafyrirtækið IFS hefur að undanförnu unnið að gerð virðismats á Icelandair. Matið var ekki unnið fyrir Icelandair, heldur viðskiptavini IFS sem eru fagfjárfestar á borð við lífeyrissjóði og banka, sem gætu haft áhuga á að fjárfesta í félaginu. Skýrslan, sem er að mestu byggð á áætlunum Icelandair, kom út á fimmtudag og fréttastofa hefur hana undir höndum. 

Mikilvægt að opna markaði í Bandaríkjunum

Helsta niðurstaðan er sú IFS metur það svo að hlutafé í Icelandair sé nokkru meira virði en útboðsgengi þess segir til um. Miðað verður við gengið 1 króna á hlut í útboðinu, en samkvæmt niðurstöðu IFS ætti það að vera 2 krónur á hlut, gangi helstu forsendur eftir. Það er þó skýrt tekið fram í skýrslunni að gríðarleg óvissa sé á mörkuðum vegna COVID-19 og að aðstæður geti breyst mjög snögglega.

Þá er tekið fram í skýrslunni að þótt IFS byggi matið á áætlunum frá stjórnendum Icelandair séu gerðar breytingar til lækkunar á væntum tekjum og afkomu á síðustu árum spátímabils.

Í skýrslunni kemur fram að Icelandair hafi sett fram áætlanir sem byggi á því að farþegaflug í heiminum verði búið að ná fyrri styrk árið 2024, ári síðar en upphaflega var talið. Þó segir í skýrslunni að samkeppni á mörkuðum muni gera félaginu erfitt fyrir að ná að auka tekjur eins og áætlanir þess geri ráð fyrir.

Þá er áhersla lögð á að tekjur Icelandair hafi að stórum hluta komið frá ferðamönnum frá Bandaríkjunum. Því sé mikilvægt að sá markaður opnist til að áætlanir félagsins gangi eftir. Í því samhengi er nefnt að forsetakosningar séu í nánd, og að þar muni frambjóðendur mögulega gera baráttuna gegn COVID-19 að kosningamáli. Margir keppinautar Icelandair hafi þurft að hætta farþegaflugi yfir Atlantshafið og því leynist tækifæri þar.

Eldsneytisverð og gengi gjaldmiðla

Þá segir að langtímasamningar við starfsstéttir geri það að verkum að minni óvissa sé um launakostnað félagsins. Áætlað sé að hagkvæmni aukist um 25% með nýjum samningum við flugmenn, nýr samningur við flugvirkja skili 10% hagræðingu og nýr samningur við flugfreyjur skili 20% aukinni hagkvæmni fyrir félagið. Alls geri áætlun Icelandair ráð fyrir því að launakostnaður verði búinn að lækka um 8% árið 2024, sé miðað við árið 2018, eða um rúma þrjá milljarða króna. Þá miðar kostnaðaráætlun Icelandair við hagfellda þróun eldsneytisverðs og gengi gjaldmiðla. 

Þá kemur fram að nú horfi til betri vegar með MAX-vélarnar og að líkur aukist á því að þær geti hafið sig til flugs á næstu misserum. Þó sé enn nokkur óvissa um hvenær það gerist, og fari svo að þær verði ekki teknar í gagnið muni það geta bitnað á afkomu félagsins á spátímabilinu.

Í skýrslunni segir enn fremur að óefnislegar eignir og viðskiptavild Icelandair hafi minnkað um sem nemur 15 milljörðum króna frá áramótum, vegna versnandi efnahagsumhverfis og verri horfa. Þá hafi eigið fé félagsins lækkað um sem nemur 50 milljörðum króna á sama tíma. 

Loks segir í skýrslunni að Ísland verði vinsæll áfangastaður til framtíðar. Til marks um það hve vinsæll hann er megi benda á að þegar landið varð aðgengilegra fyrir ferðamenn í sumar hafi sætanýting hjá Icelandair náð 70% samanborið við 40-50% hjá samkeppnisaðilum.

johann's picture
Jóhann Bjarni Kolbeinsson
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi