Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Vill sjá jöfnuð og vistvænar áherslur í arkitektúr

Mynd: hallaharðar / hallaharðar

Vill sjá jöfnuð og vistvænar áherslur í arkitektúr

13.09.2020 - 15:02

Höfundar

Hildigunnur Sverrisdóttir, nýskipaður deildarforseti arkitektúrs við Listaháskóla Íslands, segir að ásýnd bygginga í Reykjavík beri vott um mikinn hraða.

Hildigunnur Sverrisdóttir var í liðinni viku skipuð deildarforseti arkitektúrs við Listaháskóla Íslands. Hildigunnur á að baki fjölbreyttan feril sem arkitekt, rannsakandi og kennari en mun nú leiða stefnu skólans á sviði byggingarlistar. Sjálf lærði hún arkitektúr í París og Kaupmannahöfn um síðustu aldamót þar sem hún segist hafa lent á milli tveggja heima. Í París voru kennsluaðferðir að fjarlægjast stjörnuarkitektúrinn sem einkennt hafði níunda og tíunda áratuginn og færast nær þeirri aðferða- og hugmyndafræði sem einkennir byggingarlist í dag, þar sem drifkrafturinn er umhverfisvæn og samfélagslega ábyrg nálgun. Hildigunnur segir að fókusinn hafi þá  fjarlægst egó arkitektsins sem skapandi listamanns yfir í stærra samhengi umhverfis og samfélags. 

Aðspurð hvort formið í dag sé afleiðing innihalds og hugmyndafræði frekar en að útgangspunkturinn við hönnun bygginga sé höfundareinkenni einstakra arkitekta, segir Hildiunnur svo vera að einhverju leyti. „Ég held að það sé alltaf ákveðin hugmyndafræði sem mótar formið en það er spurning hvaðan hugmyndafræðin kemur. Er hún til þess að upphefja einhvern eða upphefja ákveðið samhengi, eða er hún hugsuð til þess að búa til skilvirkara samfélag  innan byggingarinnar, eða undirstrika jöfnuð eða gegnsæi.“ 

Spurð um þá fagurfræði sem hafi verið ríkjandi í byggingarlist hér á landi síðustu ár segir Hildigunnur að ásýnd Reykjavíkur sé fyrst og fremst afleiðing af miklum hraða. Uppbygging í miðborginni sýni að enn séum við á mótunarstigi sem samfélag. „Á árunum fyrir hrun fylgdu byggingum miklir draumar um það hver við erum. Við höfum aldrei átt hallir eða lestarstöðvar og allt í einu birtist með Hörpu íslensk hugmynd að því hvernig við viljum að aðrir sjái okkur. Svo fórum við að draga saman seglin en samt birtist ákveðinn draumur um að vera stór, og menn meðal manna, í því hvernig  við byggðum.“

Hildigunnur segir að mörg hótel hafi verið byggð mjög hratt. „Við erum að taka mikið af gamla miðbænum og breyta honum án þess að staldra við og spyrja hvernig best sé að gera hlutina til langs tíma. Við erum kannski komin með dálítið hraðgerð svör á því hver við erum sem höfuðborg.“ 

Útlit húsanna beri því miður vott um þetta. „Inn á milli eru ákveðnar tilraunir til þess að gera fjölbreytilega borgarmynd en fólk talar mikið um kassaarkitektúr og maður skilur svo sem hvaðan það kemur. Vandamálið þegar svona mikið er byggt í einu er að þá verður viðmótið í götumyndinni einsleitt. Svo, já, ég verð að segja að mér finnst þessi hraði birtast í ásýnd bygginganna. Við erum kannski ekki alveg lent í okkar staðbundnu fagurfræði heldur meira að svara hratt.“ 

En hvernig lítur arkitektúr 21. aldarinnar út? „Eins og er þá erum við ennþá að láta eins og allt verði í lagi, og við erum, sér í lagi hér, ekki farin að bregðast við þessari miklu vá. Ég held að arkitektúr hljóti að snúa að því að gera byggingar eins vistvænar og hægt er.“ Hún vonast til að byggingar birti hugmyndir um meiri samfélagslegan jöfnuð, um það hvernig hægt er að búa saman á margbreytilegan hátt. Við höfum verið upptekin af kjarnafjölskyldunni, sem er kannski bara draumur. „Á Íslandi lifðum við ekki saman sem kjarnafjölskylda áður, heldur lifðu kynslóðirnar saman á bæjunum. Ég held að það verði kannski afturhvarf í það að horfa til fjölbreyttari sambúðarmynstra.“ Og hún vonast til þess að við berum gæfu til þess að vera ábyrgir gerendur í því að finna svör sem fyrst. Það sé til að mynda ekki augljóst að  við fáum aðgang að stáli frá Kína eftir nokkur ár, og þá er spurning hvað komi í staðinn. „Eitt er að afla sér nýrra efna en það býr gífurlegt magn fjársjóða í byggingum sem eru hér fyrir. Þó að oft sé ódýrara að rífa byggingar og byggja nýja, þá á einverju stigi er augljóst að það getur varla verið. Það er einhver annar að borga í stóra samhenginu.“

Rætt var við Hildigunni Sverrisdóttur í Víðsjá á Rás1 og hægt er að hlusta á viðtalið í heild sinni hér að ofan.

Tengdar fréttir

Hönnun

Fjallkirkja Hjálpræðishersins tekur á sig mynd

Vesturland

Umsóknum í landslagsarkitektúr fjölgar um 240%

Menningarefni

Biður Brim um að gefa rafstöð eftir Sigvalda grið

Hönnun

Keisari japansks arkitektúrs verðlaunaður