Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Sundabraut verði með 50 km hámarkshraða

13.09.2020 - 13:43
Mynd: RÚV / Skjáskot
Verði Sundabraut lögð sem hraðbraut mun það kosta mörg mislæg gatnamót og hún mun skera hverfi í sundur. Þetta segir Sigurborg Ósk Haraldsdóttir borgarfulltrúi Pírata og formaður skipulags- og samgönguráðs Reykjavíkurborgar. Eyþór Laxdal Arnalds borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins segir Sundabraut ekki vera einkamál borgarinnar.

Sigurborg og Eyþór voru gestir í Silfrinu í morgun þar sem borgarmálin voru til umræðu. Sigurborg sagði að Sundabraut væri ekki fjármögnuð í samgöngusáttmálanum, en væri möguleg tenging út úr borginni. Yrði hún byggð sem hraðbraut myndi hún hafa neikvæð áhrif á loftgæði og skapa aukna umferð. Sundabraut verði fyrir alla ferðamáta og þar gæti verið 50 kílómetra hámarkshraði. 

„Hún gæti verið fyrir bíla á 50 km hraða, þá getum við náð þungaflutningunum í höfnina en þá væri hún ekki að hafa þessi ofboðslega neikvæðu áhrif á íbúana sem búa í borginni,“ sagði Sigurborg

Eyþór sagði áhugavert að Sigurborg styddi samgöngusáttmálann en ekki hugmyndina um Sundabraut. 

„Það gleymist stundum að við erum borgin við sundin. Við erum með takmarkaðar tengingar. Við þurfum brýr. Sundabrautin tengir ekki bara Reykjavík innan Reykjavíkur heldur við Vesturlandið og Norðurlandið. Þetta er hagmunamál alls landsins og órjúfanlegur hluti samgöngusáttmálans,“ sagði Eyþór.