Sögusviðið og tímaramminn mikil hindrun fyrir málefnin

Mynd: BBC / War of the Worlds

Sögusviðið og tímaramminn mikil hindrun fyrir málefnin

13.09.2020 - 14:44

Höfundar

„Sú ákvörðun að varðveita bæði sögusvið og ytri tíma upprunalega verksins verður því að stórkostlegri hindrun fyrir málefnin sem ætla mætti að þættirnir brenni fyrir,“ segir sjónvarpsrýnir Lestarinnar um nýja sjónvarpsútgáfu BBC af Innrásinni frá Mars eftir H.G. Wells.

Katrín Guðmundsdóttir skrifar:

Innrásin frá Mars eftir H.G. Wells var skrifuð fyrir meira en 100 árum og er talin eitt af upphafsritum vísindaskáldskaparins. Verkið er frægt fyrir gagnrýna hugmyndafræði en í því fordæmdi höfundurinn nýlendustefnu Englands á Viktoríutímabilinu með því að draga upp mynd af hrottafenginni innrás Marsbúa í landið. Girnd og græðgi heimsvaldasinnanna yfirfærðust á vægðarlausar verur frá geimnum og í einni svipan urðu Englendingar að kúguðum minnihlutahópi. Afstaða Wells til náttúruvals og umdeildar hugmyndir hans um félagslegan Darwinisma fléttuðust svo inn í frásögnina þannig að samfélagsrýnin var alltumlykjandi.

Innrásin hefur verið endurgerð ótal sinnum á ýmiss konar formi og með mismunandi áherslum hverju sinni. Frægast er annars vegar útvarpsleikrit Orsons Welles sem leiddi í ljós áhrifavald útvarpsins á fjórða áratugnum og hins vegar stórsmellur Stevens Spielbergs, sem yfirfærði ógnina á hryðjuverkasamtök í kjölfar árásarinnar á tvíburaturnana 11. september 2001. Báðir staðfærðu atburðina á Bandaríki samtíma síns og nýttu frásögnina til að fjalla um aðkallandi málefni hvers tíma. Það var því forvitnilegt að sjá Breska ríkisútvarpið ríða á vaðið með þriggja hluta örþáttaröð sem heldur sig við upprunalega sögusviðið en færir sjálfa innrásina áratug fram í tímann. Til hvers að endurgera þessa klassík núna? Og hvaða erindi á hún við samtíma okkar í þetta sinn?

Endurskrifa söguna

Þessum spurningum er að hluta til svarað strax á fyrstu mínútu fyrsta þáttar. Þar kynnir sögumaður atburðina fyrir áhorfendum rétt eins og í skáldsögunni en sker sig úr fyrir þær sakir að röddin tilheyrir kvenmanni. Þessi kvenmaður, Amy, er jafnframt söguhetja þáttanna og veitir frásögninni þar með sjónarhorn sem ekki hefur verið unnið með áður. Ákvörðunin er í sjálfu sér ekki djörf árið 2020 og samlagast bæði umræðunni um skort á heilsteyptum kvenpersónum í kvikmyndum og sjónvarpi og ákallinu um aukna virkni þeirra í aðalhlutverkum. Hér gefst BBC því tækifæri til að endurskrifa söguna, bókstaflega.

Amy er bæði snjöll og fögur, menntuð í náttúruvísindum og forvitin eftir því. En hún ber líka barn undir belti, sem undirstrikar líffræðilegt hlutverk hennar sem konu. Amy þarf því bæði að takast á við ógnina sem fylgir innrás Marsbúanna og að vera kona í karlaheimi. Til að mynda er henni sagt að vettvangur innrásarinnar sé enginn staður fyrir konu að vera á og þegar upp kemst um þungunina eru ákvarðanir sem snerta öryggi hennar og barnsins umsvifalaust teknar fyrir hana. Óreiðan sem fylgir ástandinu veldur því enn fremur að karlmennirnir í samfélaginu verða margir hverjir ásælnari og hið áður ört vaxandi jafnréttissamfélag getur ekki lengur verndað áunnin réttindi hennar.

Réttur hlutur kvenna í bókmennta- og kvikmyndasögunni er þó ekki eina málefnið sem BBC snertir á með innrás þessari, því inn í línulega frásögn Amyar af atburðunum fléttast brotakennd framlit í lífið eftir þá. Þessi framlit einkennast af böli og angist í siðlausu samfélagi, þar sem bæði sjálfsögð og ásköpuð lífsgæði heyra sögunni til. Þau eru tilraun til að bregða upp mynd af framtíð þar sem ekkert vex eða dafnar í eitruðum heimi, ekki ósvipuðum þeim sem vísindamenn hafa varað við að bíði okkar – og enn fremur barnanna okkar – ef við grípum ekki til aðgerða í loftslagsmálum. Í von um að höfða til samvisku áhorfenda sýna þættirnir hlutskipti þriggja barna sem eru hvert öðru ömurlegra. Einu þeirra er slátrað, annað verður umkomulaust og það þriðja, sonur Amyar, fær aldrei að líta dagsins ljós. Marsbúarnir virðast því ekki vera neitt annað en hugsunarlausar neysluverur sem sjúga upp auðlindir jarðarinnar, drepast og skilja eftir sig eyðilagðan heim fyrir komandi kynslóðir.

England dýrkað og dásamað

Það segir sig sjálft að um leið og ný persóna fær tækifæri til að segja svona gamla sögu og á splunkunýjum forsendum, þarf að fórna einhverju af gamla myndmálinu. Það er hins vegar ekki raunin og reyna þættirnir þvert á móti hvað þeir geta til að halda tryggð við skáldsögu Wells samhliða því að færa áherslurnar inn í nútímann. Ágætt dæmi um þetta er tilhugalíf stjörnufræðingsins Ogilvy en þættirnir gefa fastlega í skyn að hann sé samkynhneigður, jafnvel þótt það þjóni engum tilgangi fyrir framvindu sögunnar. Eins er England dýrkað og dásamað á sögulegum nótum sem heimsveldið þar sem sólin sest aldrei. Áhorfendur fá tilfinningu fyrir því hversu ósnertanlega þjóðin taldi sig vera á sínum tíma með löngum einræðum embættismanna um yfirburði enskra vopna og þrautseigju hermanna krúnunnar. Aðeins til þess eins að heiðra Wells og hugverk hans, að því er virðist.

Snilldin við innrás Wells á sínum tíma var hversu vel honum tókst að fanga vænisýkina sem Englendingar upplifðu samhliða því að vera ráðandi valdastétt í heiminum undir lok nítjándu aldar. Þráhyggjan fyrir því að einhvers staðar gæti einhver verið að brugga þjóðinni launráð var þrúgandi, sem og tilhugsunin um að glata öllum þeim forréttindum sem þegnar samfélagsins voru aðnjótandi á kostnað annarra. Tímaleysi verksins er síðan til komið vegna þess að gagnrýnin finnur sér alltaf nýjan farveg í samtíma hverrar aðlögunar. Sú ákvörðun að varðveita bæði sögusvið og ytri tíma upprunalega verksins verður því að stórkostlegri hindrun fyrir málefnin sem ætla mætti að þættirnir brenni fyrir. Loftslagsváin fellur í skuggann af ógrisjuðu myndmáli Wells og kynbundnar fyrirstöður persóna flækjast bara fyrir. Á endanum er erfitt að átta sig á því hvaða samfélag þættirnir eru að gagnrýna; upphaf tuttugustu aldar eða 2020?

Tengdar fréttir

Sjónvarp

Illþolandi og innihaldslaust líkt og lífsstíllinn

Sjónvarp

Fallegt fólk að gera ljóta hluti

Sjónvarp

Sjónvarpsefni sem enginn ætti að láta framhjá sér fara

Sjónvarp

Flatur hryllingur og lítil spenna