„Þetta er náttúrlega mjög merkilegt hús í grunninn, það er ekkert voðalega mikið eftir af því. Það er eitt af þremur elstu húsum í Reykjavík, íbúðarhúsum, ásamt Aðalstræti 10 og Austurstræti 22, sem er við hliðina og búið er að endurbyggja,“ segir Páll. Hann segir húsið harðfriðað og ekkert megi gera í því án blessunar Minjastofnunar.
Byggingaraðferðin heitir bolverk, stoðir þar sem trjábolir eru felldir inn í stoðirnar. Páll segir það algenga byggingaraðferð í Skandinavíu þar sem nóg er af timbri, en sjaldgæfa hér. Til stendur að vera með eina þrjá veitingastaði í Hressingarskálanum öllum og verður sagan höfð sýnileg. Steinsnar frá Hressingarskálanum er annar veitinga- og skemmtistaður að ganga í endurnýjun lífdaga.
Þar hefur verið dansað áratugum saman. Fyrst í gamla Sjálfstæðishúsinu, svo í Sigtúni og loks í Nasa. Á næsta ári verður dansað þar aftur. Staðurinn verður nákvæm eftirlíking af forvera sínum, nema nýi salurinn verður einni hæð neðar. Arkitektinn segir að rýnt hafi verið í smáatriðin.