Simpansasmyglarar stöðvaðir í Simbabve

13.09.2020 - 04:16
OLYMPUS DIGITAL CAMERA
 Mynd: Wikimedia Commons
Yfirvöld í Simbabve lögðu hald á 26 apa sem reynt var að smygla frá Kongó. Fjórir voru handteknir vegna málsins að sögn yfirvalda beggja ríkja. Reynt verður að koma öpunum aftur til sinna heima. Einnig var lagt hald á mikið magn hreisturs af hreisturdýrum í norðausturhluta Kongó.

 

Tveir Kongómenn, Malavi og Sambíumaður voru stöðvaðir af landamæravörðum í Simbabve. Þangað komu þeir á flutningabíl, með apana í farangursrýminu. Aparnir eru komnir í umsjón yfirvalda í Simbabve, en þeim verður svo skilað aftur til heimkynna sinna. 

Claude Nyamugabo Bazibuhe, umhverfisráðherra Kongó, segir smyglara hafa notað fölsuð skjöl til þess að hrifsa 32 lifandi simpansa með sér frá Haut-Katanga-héraði í suðausturhluta Kongó, við landamærin að Sambíu. Þeir sögðust ætla með apana til Suður-Afríku. Nú er rannsakað hvort aparnir sem fundust í Simbabve á föstudag séu úr sama hópi. Allir mannapar og öll hreisturdýr eru vernduð í Kongó, að sögn Nyamugabo Bazibuhe. Hreistrið sem var gert upptækt fannst í heimahúsi þar sem verið var að pakka því til flutnings. Alls fundust 56 kílógrömm af hreistri.

Kongó er eitt síðustu ríkja þar sem mannapar lifa enn villtir. Þar eru til að mynda heimkynni tveggja górillutegunda. Hreisturdýrin eru vinsæl meðal smyglara, því hreistur þeirra eru notuð við gerð lyfja að forn-kínverskum sið. Magn hreisturs af dýrunum sem lagt hefur verið hald á í heiminum var tífalt meira árið 2018 en fjórum árum áður að sögn Sameinuðu þjóðanna. 

 

Róbert Jóhannsson
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi