Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Repjuolía gæti dregið verulega úr losun koldíoxíðs

Mynd með færslu
 Mynd: Aðsend - Ólafur Eggertsson
Hægt væri að minnka losun margra gróðurhúsalofttegunda um tugi prósenta með því að skip og vinnuvélar noti lífrænt eldsneyti í stað jarðefnaeldsneytis. Þingmenn leggja að samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra að skipa starfshóp til að meta hagræn áhrif þess að rækta repju og nepju á Íslandi.

Lagt erað Sigurði Inga Jóhannssyni, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra, að skipa starfshóp til að gera áætlun varðandi efnahagslega hvata þess að rækta repju og nepju til framleiðslu bíódísils sem nota megi í stað jarðefnaeldsneytis.

Silja Dögg Gunnarsdóttir þingmaður Framsóknarflokksins hefur lagt fram þingsályktunartillögu þess efnis ásamt fleiri þingmönnum. Í greinargerð með ályktuninni kemur fram að allt frá árinu 2008 hafi verið gerðar tilraunir með öflun innlendra umhverfisvænna orkugjafa, á vegum Siglingastofnunar Íslands og síðar Samgöngustofu.

Fljótlega var sjónum beint að nepju og repju, ræktun þeirra og vinnslu afurða úr þeim. Við það var horft til reynslu annarra landa á norðurslóðum. Fram kemur að unnt er að rækta þær jurtir víða um land og ekkert virðist því til fyrirstöðu að nýta þær líkt og gert er annars staðar.

Rækta þyrfti jurtirnar á um 160 þúsund hekturum svo hægt verði mæta þörfum fiskiskipaflotans. Í aðsendri grein á Eyjafréttum segir Silja Dögg Gunnarsdóttir að tiltækt ræktunarland á landinu sé um 480 þúsund hektarar.

Með því að 30% af eldsneyti fiskiskipaflotans væri repjuolía telja þingmennirnir að unnt væri að draga úr koldíoxíðlosun um 60 af hundraði. Silja Dögg Gunnarsdóttir kveður fyrsta skrefið vera að prófa íblöndun á repjuolíu á vinnuvélar þjónustudeildar Isavia. Samgöngustofa og Isavia undirrituðu viljayfirlýsingu um kolefnislausan flugvöll þann 8. september síðastliðinn.

Olía telst vera um 15% afurða jurtanna og hana er hægt að nota á stærri dísilvélar án breytingar. Við minni dísilvélar þarf að setja olíuhitara en í greinargerðinni kemur fram að líklegast sé fyrst í stað að olíunni verði blandað við dísilolíu í hlutfallinu 5 til 25%.

Nauðsynlegt er að mati flutningsmanna þingsályktunartillögunnar að styðja við þróun þessarar nýju greinar landbúnaðar uns hún telst vera sjálfbær.