Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Malí: Borgarhreyfingar hafna tillögum herstjórnarinnar

13.09.2020 - 16:19
epa08659844 Delegates attend a round of national consultations on the management of the transition in Bamako, Mali, 10 September 2020. Mali President Ibrahim Boubakar Keita resigned 19 August 2020 after a coup by the military on 18 August 2020 with the National Committee for the Salvation of the People (CNSP) in control and steering the process towards a transition.  EPA-EFE/H.DIAKITE
 Mynd: EPA-EFE - EPA
Hreyfing borgaralegu aflanna í Malí hefur hafnað tillögum herforingjastjórnarinnar um hvernig staðið skuli að valdaskiptum í landinu.

Stjórnin gerði að tillögu sinni að átján mánuðir yrðu teknir í umskiptin en Fimmta júní hreyfingin andmælti þeirri hugmynd og öðrum harðlega.

Þriggja daga ráðstefnu stjórnarinnar, stjórnmálaflokka og frjálsra félagasamtaka lauk í gær. Hreyfingin brigslaði herforingjastjórninni um einræðistilburði.

Framámaður í hreyfingunni, Sy Kadiatou Sow fullyrðir að stjórnin hefði „slátrað“ lokaútgáfu tillagnanna. Verkalýðsforinginn Sidebe Dedeou Ousmane segir ekkert af tillögum hennar hefði lifað af breytingar herstjórnarinnar.

Moussa Mara fyrrverandi forsætisráðherra er þeirrar skoðunar að skjal stjórnarinnar sé ekki fullkomið en sé góður grunnur að umbreytingartímabilinu sem framundan er í Malí.

Nokkrum lykilatriðum í niðurstöðum ráðstefnunnar var sleppt úr skjali stjórnarinnar en öðrum bætt við að sögn fulltrúa Fimmta júní hreyfingarinnar. Hann kveður herforingjastjórnina hafa beitt þrýstingi og ólýðræðislegum aðferðum sem ættu ekki við í nútímanum.

Stjórnin hefði breytt hugmyndum borgaralegu hreyfinganna um að forseti yrði eingöngu valinn úr þeirra röðum. Þess í stað lögðu herforingjarnir til að forsetinn gæti allt eins verið hermaður.

Fréttaritari AFP kveðst ekki hafa séð lokaskjalið en í uppkasti frá því á laugardag kom fram að nefnd á vegum herstjórnarinnar veldi þann sem sitja myndi sem forseti meðan á umbreytingartímabilinu stendur.