Lestur á tímum Covid – Flóðið á skjánum okkar

Mynd: RÚV / RÚV

Lestur á tímum Covid – Flóðið á skjánum okkar

13.09.2020 - 19:02

Höfundar

„Við þurfum lestur til að skilja kjarnann frá hisminu, glansumbúðir samfélagsmiðla frá raunverulegu lífi, sannleikann frá falsfréttum,“ segir pistlahöfundur Lestarinnar í fjórða pistli sínum um lestur þar sem hann beinir sjónum sínum að framtíðinni.

Þorvaldur S. Helgason skrifar:

Kæru lesendur, í síðasta pistli fjallaði ég um bókasöfn og þau fjölmörgu, gríðarmikilvægu hlutverk sem þau gegna í samfélagi okkar. Ég hef farið um víðan völl í heimi lesturs í undanförnum þremur pistlum, allt frá minni eigin litlu og einmanalegu íbúð á tímum samkomubannsins yfir í lærða og að því er virðist óendanlega ganga bókasafnsins í Alexandríu til forna. Nú er komið að lokapistlinum í þessari pistlaröð en þó er heilmikið eftir og því ráðlegg ég ykkur að hlusta vel og lesa vandlega er við ferðumst nokkurþúsund ár aftur í tíma til Forn-Grikklands og hlýðum á hvað Sókrates hefur að segja um lestur og hið ritaða mál. Í Fædros, einni af samræðum Platons, ræða þeir Sókrates og hinn samnefndi Fædros jafn víðtæk málefni og ástina, mælskulistina og endurholdgun sálarinnar. Undir lok samræðunnar berst talið að ritmálinu en Sókrates endursegir Fædrosi upprunasögu þess eins og hún kemur fram í trúarbrögðum Forn-Egypta. Samkvæmt þeim var það guðinn Þevð, gjarnan túlkaður sem maður með höfuð íbisfugls, sem færði mannkyninu ritmálið að gjöf. Platon sviðsetur þessa frásögn Sókratesar sem samræðu inni í samræðunni sem á sér stað á milli Þevðs og konungsins Þamosar.

„Þevð, sem ert listfengastur allra, það er eins manns að skapa eitthvað af list, annars að dæma um nytsemi eða skaðsemi þess sem skapað er fyrir notendurna. Og nú hefur umhyggjan sem þú berð sem faðir ritmálsins fengið þig til að halda því fram að uppfinningin hafi gagnstæð áhrif við það sem raunin er. Hún mun innræta gleymsku í sálum þeirra sem læra að nota hana: Þeir vanrækja minni sitt þar sem þeir setja traust sitt á hið ritaða mál sem kemur að utan frá framandi táknum svo að þeir rifja ekki neitt upp sjálfir af sjálfum sér. Þú hefur ekki fundið upp lyf til að muna, heldur áminningarlyf. Það er ekki sönn viska sem þú berð nemendum þínum á borð, heldur sýndin ein.

Hið stafræna form tekur yfir

Kæru lesendur, ástæðan fyrir því að ég kýs að hefja pistilinn á þessari tæplega 2400 ára gömlu tilvitnun er sú að í dag stöndum við frammi fyrir svipuðu vandamáli og Platon lýsir í gegnum Sókrates í gegnum Þamos hér að framan. Í okkar nútímasamfélagi takast nú á tveir miðlar sem hvor um sig keppist um að verða hinn ríkjandi þegar kemur að miðlun upplýsinga, þekkingar og raun allra mannlegra samskipta. Á tímum Sókratesar voru átökin á milli munnlegrar geymdar og ritaðs máls en í dag eru þau á milli ritmálsins og hins stafræna myndmáls sem við erum öll farin að reiða okkur sífellt meira á. Við vitum auðvitað öll hvernig menningarátökin á dögum Sókratesar fóru, við getum séð afleiðingarnar í mannkynssögu síðustu tuttugu og fjögurra alda, ritmálið hefur nær undantekningarlaust haft yfirhöndina í langflestum menningarsamfélögum heimsins. En þó svo að átökin nú á dögum hafi enn ekki verið útkljáð þá er nokkuð ljóst í hvað stefnir. Bækur hafa enn sem komið er yfirhöndina þegar kemur að miðlun skáldskapar en á mörgum öðrum sviðum okkar daglega lífs hefur hið stafræna form nú þegar tekið yfir, sem dæmi má nefna bréfasendingar, lestur dagblaða og menntun ef marka má nýjustu fréttir úr Laugarnesskóla.

Í grein sem birtist í Morgunblaðinu sunnudaginn 6. september ræddi blaðamaðurinn Margrét Hugrún við Björn Gunnlaugsson, aðstoðarskólastjóra í Laugarnesskóla. Björn er nokkuð framúrstefnulegur í hugmyndum sínum um kennslu og talar hann meðal annars um mikilvægi þess að skólakerfið, sem hann telur vera nokkuð íhaldssamt, haldist í hendur við þær gífurlegu tæknibreytingar sem eiga sér stað í samfélaginu í dag. Þetta er auðvitað gott og gilt og er ég hjartanlega sammála Birni að það sé mikilvægt fyrir skólakerfið að innleiða nýja tækni og nýjar hugmyndir inn í kennsluaðferðir sínar til að haldast í takt við tímann. En undir lok viðtalsins setur Björn fram hugmynd sem er ekki bara róttæk heldur einstaklega varhugaverð í ljósi þeirrar þróunar sem nú á sér stað.

„Hver þarf landa­fræðibók til að segja sér hver sé höfuðborg Belg­íu þegar það er hægt að spyrja ís­skáp­inn? Ég er meira að segja ekki viss um að það verði svo mik­il­vægt að kenna börn­um að lesa. Við erum þegar far­in að sjá merki þess að hið ritaða mál hef­ur ekki sama vægi og áður, ým­iss kon­ar mynd­ræn fram­setn­ing skip­ar æ stærri sess og það er nú þegar hægt að nota talað mál til að skrá­setja hluti og koma upp­lýs­ing­um á fram­færi.“

Tæknin ekki hlutlaus miðill

Björn vill meina að tæknin, þá sérstaklega snjallsímarnir sem flest fólk notar til ýmissa athafna, sé orðin svo áreiðanleg og alltumlykjandi að hún muni á endanum leysa lestur af hólmi og þar af leiðandi gera lestrarkennslu óþarfa. Ég er auðvitað ekki hlutlaus í þessum málum, verandi bæði rithöfundur og sérlegur áhugamaður um lestur, en ég verð að segja að það að slíkar yfirlýsingar komi frá aðstoðarskólastjóra í einum af grunnskólum Reykjavíkurborgar ber ekki aðeins merki um gagnrýnislausa ofurtrú á tækninni heldur einnig gífurlegt vanmat á eðli lesturs og mikilvægi hans fyrir samfélagið. Því eins og við höfum séð í þessum pistlum þá er lestur ekki einfaldlega bara það að setjast niður með bók, sem Birni finnst sennilega alveg hrikalega gamaldags, heldur svo miklu, miklu meira.

Lestur er eitt mikilvægasta þekkingartólið sem börn geta öðlast og opnar fyrir þeim nýja aðferð til að öðlast skilning, bæði á heiminum í kringum þau og heiminum innra með þeim. Góð færni í lestri og lesskilningi er ekki síður mikilvæg einmitt til þess að skilja forsendur þeirrar tækni sem Björn virðist hafa svo mikla tröllatrú á og er í dag orðin margfalt flóknari en hinn almenni borgari getur gert sér í hugarlund. En þessi tækni er ekki bara hlutlaus miðill sem getur komið í stað lesturs jafn auðveldlega og hljóðbók getur komið í stað prentaðrar bókar. Þvert á móti, þá hefur sú tæknibylting sem við göngum í gegnum núna gífurleg áhrif á alla okkar heilastarfsemi. Það að skjálestur sé óðum að leysa bóklestur af hólmi er nefnilega ekki bara að breyta samskiptamynstri okkar heldur er það bókstaflega að breyta því hvernig við hugsum.

Hinn sammannlegi athyglisbrestur nútímans

Þetta er bein afleiðing af sveigjanleika mannsheilans sem ég fjallaði um í fyrsta pistlinum. Í sem allra einföldustu máli þá er það þessi sveigjanleiki sem gerir okkur kleift að skapa nýjar tengingar í heilanum og læra eitthvað nýtt en þetta hefur þau áhrif að þær tengingar sem við notum oftast styrkjast mest á meðan þær sem við notum sjaldan veikjast. Eins og Nicholas Carr segir í bókinni The Shallows frá 2010, bók sem fyrir áratug spáði að mörgu leyti fyrir um þá umræðu sem á sér stað í dag um áhrif tækninnar á mannsheilann, þá er hugsanaferli okkar þegar byrjað að breytast með aukinni tækninotkun „Rólegur, einbeittur, ótruflaður, hinum línulega hug hefur verið ýtt til hliðar af nýjum hug sem þráir og þarf að taka inn og skammta upplýsingar í stuttum og sundurlausum sprettum sem oftast skarast – því hraðar, því betra.“

Carr er að lýsa hinum sammannlega athyglisbresti nútímamannsins sem veldur því að hann á sífellt erfiðara með að einbeita sér að einu í einu. Hugsun hans er ekki lengur línuleg heldur ef til vill meira eins og spírall. Hann reynir að fylgja einum þræði sem leiðir hann fyrirvaralaust að öðrum þræði og svo koll af kolli. Þetta má sennilega að miklu leyti rekja til þess hversu vön við erum orðin truflun í okkar daglega lífi en rannsóknir hafa sýnt að fólk á þrítugsaldri skoðar símann sinn að meðaltali á milli 150 til 190 sinnum á einum degi.

En það er ekki bara truflunin sem er að breyta því hvernig við hugsum heldur einnig óstöðvandi upplýsingaflóðið sem dynur á okkur í gríð og erg. Í bókinni Reader Come Home frá árinu 2018, fjallar Maryanne Wolf meðal annars um áhrifin sem hin svokallaða ofhleðsla upplýsinga, eða information overload á ensku, hefur á heilann. Wolf vitnar í rannsókn sem gerð var við Kaliforníuháskóla þar sem fram kom að meðalnútímamaðurinn innbyrðir um það bil 34 gígabæt af upplýsingum á hverjum degi í gegnum mismunandi tæki. Þetta jafngildir um það bil 100.000 orðum á dag sem er á lengd við meðalskáldsögu. „Hvað gerum við við hugræna ofhleðslu frá margföldum gígabætum upplýsinga úr mörgum mismunandi tækjum? Í fyrsta lagi, þá einföldum við. Í öðru lagi, þá greinum við upplýsingarnar eins og fljótt og við mögulega getum; nánar tiltekið, við lesum í styttri sprettum. Í þriðja lagi, þá forgangsröðum við. Smám saman byrjum við hin lævísu fórnarskipti á milli þarfar okkar til að vita og þarfar okkar til að spara tíma og vinna hann upp.“

Facebook les okkur, ekki öfugt

Kæru lesendur, þetta eru bara nokkrar af þeim afleiðingum sem tæknibyltingin sem við erum meðal fyrstu tilraunadýranna til að ganga í gegnum hefur á vitsmunastarfsemi okkar. Ef við ætluðum að fara ofan í saumana á öllum afleiðingum þessara breytinga myndi það krefjast heillar þáttaraðar en ekki bara eins pistils. En ég hvet ykkur þó öll til að lesa bækur Nicholas Carr og Maryanne Wolf enda eru þær bæði fræðandi og uggvænlegar.

Ég hef nú varið undanförnum þremur pistlum í að fjalla um mikilvægi lesturs. Í þessum lokapistli hef ég lýst þeim áskorunum sem við stöndum frammi fyrir ef við ætlum okkur ekki að glata þessum mikilvæga hæfileika og þekkingartóli. Við lifum í heimi þar sem aragrúi upplýsinga keppist stöðugt um athygli okkar og tíma í gegnum aragrúa ólíkra tækja. En á meðan það reynist okkur sífellt erfiðara að halda einbeitingu í þessu upplýsingaflóði þá er þessi sama tækni sífellt að verða betri í að lesa okkur. Það er engin tilviljun að Facebook, stærsti og vinsælasti samfélagsmiðillinn, sé nefndur eftir bók. Við misskildum hins vegar forsendurnar, því þetta er ekki bók sem við eigum að lesa, heldur er þetta bók sem les okkur. Það erum jú við, notendurnir, sem myndum blaðsíðurnar í andlitsbókinni.

Lesturinn mikilvægt afl

En hvað getum við gert? Fyrst og fremst þurfum við að hlúa að lestri og lesskilningi og finna honum farveg í gegnum þær gífurlegu samfélagsbreytingar sem nú eiga sér stað. Þarna leika menn eins og Björn Gunnlaugsson og allir í menntakerfinu stórt hlutverk en einnig við sem lesendur. Það er mín einlæga trú að lestur sé einn mikilvægasti eiginleikinn sem samfélagið ætti að vera að rækta og að hann getið farið með stórt hlutverk í tæknibyltingunni. Það verður kannski ekki sú rómantíska ímynd um bóklestur undir teppi sem þau okkar sem muna tímana fyrir tölvur tengjum við. Sú birtingarmynd lesturs er sífellt að verða fjarlægari og ég er ekki svo bjartsýnn að ég telji okkur geta snúið við þeirri þróun sem er þegar hafin.

En lestur mun halda áfram að verða mikilvægt afl alla vega í nánustu framtíð. Við þurfum lestur til að geta sigtað raunverulega þekkingu út úr upplýsingaflóðinu sem mætir okkur á hverjum degi í hinum stafræna heimi. Við þurfum lestur til að skilja kjarnann frá hisminu, glansumbúðir samfélagsmiðla frá raunverulegu lífi, sannleikann frá falsfréttum. Ef við getum það ekki munum við halda áfram að verða leiksoppar afla sem við skiljum varla sjálf en eru sífellt að verða betri í að lesa í okkur. En fyrst og fremst þurfum við lestur til að skilja okkur sjálf, því lestur er ferðalag sem við höldum í inn á innri slóðir og ef við glötum þeim hæfileika þá er góð hætta á að við glötum sjálfum okkur í leiðinni.

Tengdar fréttir

Pistlar

Bókasafnið er hógvært, útópískt og anarkískt

Pistlar

Lestur á tímum COVID – Að lesa með eyrunum

Pistlar

Lestur á tímum COVID – virkjun ímyndunaraflsins

Bókmenntir

Lestur hefur verið skemmtun á öllum tímum