Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Kona með barn slapp naumlega undan bíl á göngugötu

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Hársbreidd munaði að ekið yrði á konu með ungt barn á göngugötu á Laugavegi í morgun. Ásgeir Þór Ásgeirsson yfirlögregluþjónn hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu segir þetta sýna hvað geti gerst á göngugötum þar sem engar hindranir séu fyrir bílaumferð.

Þetta gerðist á ellefta tímanum í morgun. Skömmu áður hafði lögregla fengið tilkynningu um litlum sendibíl hefði verið stolið ofarlega á Laugavegi 

„Rétt austan við gatnamótin við Klapparstíg er móðir með tvö börn sin, annað í barnavagni og hitt á sparkhjóli sem þarf að bregðast við og forða börnunum sínum frá þar sem þessum bíl er ekið þarna í gegn,“ segir Ásgeir.

Konan tilkynnti strax um atvikið, lögregla var í grenndinni og veitti bílnum eftirför. Eftir skamma stund náðist hann, ökumaður var handtekinn og er nú í vörslu lögreglu þar sem hann bíður skýrslutöku.  Hann reyndist vera undir áhrifum fíkniefna.

Þetta gerðist á þeim hluta Laugavegar sem hefur verði breytt í göngugötu og Ásgeir segir að þetta sýni fram að loka þurfi göngugötunum betur fyrir umferð. 

„Svona dæmi sýna að hvað getur gerst ef göngugötum er ekki lokað tryggilega til þess að það sé ekki hægt að aka um þær. En síðan eru mismunandi hagsmunir, það þarf að koma að vörum og þessar götur eru opnar til þess að fatlað fólk geti komist á sínum ökutækjum þarna, þeir sem eiga þarna verslanir og þeir sem búa þarna inni í þessum svæðum þeir mega aka þarna að heimilum sínum. Þannig að þetta er ekkert einfalt úrlausnarefni.“

Voru barni og móðirin í hættu? Munaði litlu að ekið yrði á þau? „Það var ekki mikið bil milli bílsins og barnavagnsins þegar bíllinn fór þar framhjá. Ég get alveg staðfest það,“ segir Ásgeir.

Fréttin og fyrirsögnin hefur verið leiðrétt - konan var með eitt barn, en samkvæmt fyrstu upplýsingum lögreglu var um tvö börn að ræða, eins og kemur fram í máli Ásgeirs Þórs Ásgeirssonar yfirlögregluþjóns.