Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Kolvitlaus mynd af Jesú í flestum kirkjum á Íslandi

13.09.2020 - 19:20
Mynd: Kristinn Gauti Gunnarsson / RÚV
Sóknarprestur segir að sú mynd sem flestir hafi í huga sér af Jesú sé röng. Skiptar skoðanir eru um auglýsingamynd þjóðkirkjunnar, þar sem Jesú er sýndur með brjóst og andlitsfarða. Kirkjan hefur beðist afsökunar á myndinni en strætó skreyttur henni ekur um göturnar næstu vikurnar.

„Við þurfum ekkert svona“

Þjóðkirkjan hratt af stað auglýsingaherferð á dögunum til að kynna sunnudagaskóla kirkjunnar. Þar var Jesús sýndur með brjóst og andlitsfarða, með það í huga að fagna fjölbreytileika samfélagsins. Bæði innan og utan kirkjunnar, og eins meðal hinsegin fólks, eru skiptar skoðanir um uppátækið. Hafa margir tjáð andúð sína á meðan aðrir fagna. Sumir hafa jafnvel gengið svo langt að skrá sig úr Þjóðkirkjunni.

Kirkjugestir sem fréttastofa hitti í Hallgrímsskirkju í morgun voru ekki allir á sama máli. Ein segir myndina kjánalega. „Við þurfum ekkert svona,“ segir Ásdís Gunnarsdóttir. Rósa Björk Þorbjarnardóttir sagðist í fyrstu hafa orðið hissa. „En ég skil hvað þeir vildu gera, að það eru allir velkomnir hjá Jesú,“ segir Rósa Björk.

Vitum ekki hvernig Jesú leit út

Davíð Þór Jónsson, sóknarprestur Laugarneskirkju, segir að það hafi stuðað fólk að sjá aðra mynd af Jesú en það hefur vanist. „Nánast í hverri einustu kirkju á Íslandi er kolvitlaus mynd af Jesú þar sem hann er sýndur sem grannur, ungur, Norður-Evrópumaður. Sem er alrangt - við vitum ekki hvernig hann leit út,“ segir Davíð Þór. Í pistli um málið á heimasíðu Laugarneskirkju bendir hann á að útliti Krists er ekki lýst í Biblíunni. 

Davíð Þór segir að Jesús hafi tilheyrt hópi hinna jaðarsettu í samfélaginu. „Við verðum að eiga myndir af Jesú þar sem hann er sýndur sem einn hinna kúguðu, einn hinna útskúfuðu, einn hinna jaðarsettu, og við búum í samfélagi þar sem að trans fólk, því miður, tilheyra þessum hópi.“

Góð, kristileg og falleg hugsun en klaufalega að þessu staðið

Kirkjuþing Þjóðkirkjunnar sendi í gærkvöldi frá sér yfirlýsingu þess efnis að því þyki afar miður að myndin hafi sært fólk. Davíð Þór segir að persónulega harmi hann afsökunarbeiðni kirkjuþings. „Vegna þess ef það var eitthvað sem Jesú kristur stóð ekki fyrir þá var það að tipla á tánum í kringum móðgunargirni þeirra sem litu á sig sem prókúruhafa  hins trúarlega sannleika,“ segir Davíð Þór.

Auglýsingin hefur nú verið fjarlægð af vef- og Facebook-síðu kirkjunnar. Enn má þó sjá myndina á Strætó næstu vikurnar.

„Það er spurning hvort að auglýsing fyrir sunnudagaskólann hafi verið rétti staðurinn fyrir þessa guðfræði,“ segir Davíð Þór. „Að mörgu leyti var klaufalega staðið að þessu þótt kjarnahugsunin á bak við þetta hafi verið mjög góð og kristileg og falleg,“ segir hann.