Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Jesúkynningin kostaði kirkjuna tvær milljónir

13.09.2020 - 12:24
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV/Þjóðkirkjan
Kostnaður við umdeilt kynningarefni Þjóðkirkjunnar, þar sem Jesú er sýndur með brjóst og varalit, er um tvær milljónir. Svokallaður Jesústrætó mun aka áfram um götur borgarinnar að minnsta kosti næstu þrjá vikurnar. Pétur Markan, samskiptastjóri Þjóðkirkjunnar, segir ekki liggja fyrir hvort fjölgað hafi eða fækkað í kirkjunni vegna þessa.

Pétur segir að kostnaðurinn felist aðallega í hönnun og prentun, auk auglýsingar á strætó. „Áætlaður kostnaður við þetta kynningarefni var tæplega tvær milljónir, sem er lítillega hærri tala en hefur verið undanfarin ár. Enda erum við að nota annan miðil núna, sem er strætóinn,“ segir Pétur.

Hann segir að sóknirnar í kringum höfuðborgarsvæðið hafi lagt í púkk til að mæta kostnaði við kynningarefni í gegnum árin og einnig komi til þess fé frá Biskupsstofu.

Kapp meira en forsjá, segir biskup

Málið hefur verið til umræðu á kirkjuþingi sem nú stendur yfir og í setningarræðu sinni á þinginu sagði Agnes Sigurðardóttir biskup Íslands að hugsanlega hafi kapp ráðið meiru en forsjá þegar þessari hugmynd var hrint í framkvæmd.

„Undanfarna daga hefur mikil umræða verið um Jesúmynd sem birtist á kynningu á sunnudagaskóla vetrarins.  Ég harma það að myndin hafi valdið þeim sársauka og reiði sem margir hafa lýst.  Fólki er misboðið og er það ekki vilji minn né samstarfsfólks míns að valda slíku.  Í boðun fagnaðarerindisins felst m.a. að kirkjan sé aflvaki mannréttinda og einingar í samfélaginu, þar sem allir eiga að geta fundið sig heima. En hér réði kappið hugsanlega meiru en forsjáin þegar hugmyndinni var hrint í framkvæmd.  Ég tel að einstakt tækifæri sé nú fyrir mig og okkur á Biskupsstofu að læra af viðbrögðunum í samfélaginu,“ sagði biskup í ræðu sinni.

Pétur segir ljóst að þessi birtingarmynd Jesú gangi gegn viðhorfum margra um Kristsmyndir. 

Bæði jákvæð og neikvæð viðbrögð

„Það er aldrei upplegg hjá kirkjunni að ganga þannig að fólki að það upplifi sig sárt. En það er líka mikilvægt að undirstrika að við fáum líka mikið af jákvæðum viðbrögðum.   Þannig að það eru tvær víddir sem birtast okkur, en fyrst og fremst er Jesú á dagskrá. Og kirkjan er á dagskrá. Og  trúin er á dagskrá. Það er gott að landsmenn ræði trúna,“ segir Pétur.

Fram hefur komið að undanfarið hafi verið nokkuð um bæði úrsagnir og skráningar í Þjóðkirkjuna vegna málsins. Pétur staðfestir það en segir að upplýsingar um hvort um sé að ræða fjölgun eða fækkun ekki liggja fyrir. Hann segist ekki geta fullyrt um hvort þessi myndbirting hafi verið misráðin. „Það er aldrei misráðið að tala upp fjölbreytileika. En svo þurfum við að faðma þá sem eru sárir,“ segir Pétur.