Athugið þessi frétt er meira en 10 mánaða gömul.

Héraðskosningar í skugga eitrunar og mótmæla

13.09.2020 - 09:00
Alexei Navalny í göngu til minningar um Boris Nemtsov í febrúar í fyrra. Nemtsov var gagnrýninn á rússnesk stjórnvöld og var honum ráðinn bani árið 2015. - Mynd: Yuri Kochetkov / EPA
Héraðskosningar fara fram í Rússlandi um helgina í skugga mikilla mótmæla í nágrannaríkinu Hvíta-Rússlandi, og einnig í skugga eitrunar helsta andstæðings forsetans, Alexey Navalny. Það er því loft lævi blandið og margir nýir flokkar sem hafa viljað bjóða fram en ekki fengið blessun stjórnvalda. Í nýjasta þætti Heimskviða fjallar Dagný Hulda Erlendsdóttir um málið og segir okkur einnig frá stjórnmálaferli Navalnys, sem spannar yfir tuttugu ár.

Fjallað hefur verið um Alexei Navalny nær daglega í fréttum um allan heim eftir að eitrað var fyrir honum í borginni Tomsk í Síberíu 20. ágúst. Fullu nafni heitir hann Alexei Anatolievich Navalny og er iðulega kallaður helsti andstæðingur Vladimírs Pútíns, forseta Rússlands.

Það er alveg ljóst að það er ekki kært þeirra á milli og sagt er að Pútín hafi aldrei sagt nafn Navalnys opinberlega, hvorki í viðtölum, né í ræðum - með einni undantekningu þó. Árið 2013 sagði forsetinn nafnið og rataði málið í fréttir á þeim tíma. Þýsk yfirvöld segja alveg ljóst að eitrað hafi verið fyrir stjórnarandstæðingnum og hafa krafið rússnesk stjórnvöld um rannsókn á málinu. Augu margra hafa beinst að yfirvöldum, enda er Navalny ekki fyrsti andstæðingur þeirra sem eitrað er fyrir, eða unnið mein.  

Eitrunin er langt í frá það eina

En það er ekki aðeins Navalny sem hefur orðið fyrir ofsóknum í gegnum árin heldur líka hans nánustu. Bróðir hans, Oleg Navalny, var dæmdur til þriggja og hálfs árs fangelsisvistar fyrir fjárdrátt fyrir nokkrum árum og er búinn að sitja af sér dóminn. Navalny fékk þriggja ára skilorðbundinn dóm fyrir fjársvik og komst Mannréttindadómstóll Evrópu að þeirri niðurstöðu að dómarnir hefðu ekki verið á rökum reistir og að bróðir Navalny hafi verið pólitískur fangi. 

En hver er þessi 44 ára gamli lögfræðingur sem hefur gert það að starfi sínu að vera stjórnmálamaður þó að hann fái síst af öllum að bjóða sig fram í kosningum? Navalny hóf stjórmálaferilinn í Moskvu í flokknum Jablaka, árið 1999, þá tuttugu og þriggja ára gamall, nýútskrifaður lögfræðingur. Á þeim tíma var Pútín nýorðinn forsætisráðherra í fyrsta sinn, og sat við hlið Borisar Jeltsín, þáverandi forseta.

Það þótti vera þjóðernislegur tónn í stefnu Navalnys fyrstu árin. Það hugnaðist ekki forystu hins frjálslynda stjórnarandstöðuflokks Jablaka og því skyldu leiðir árið 2007. Árið 2013 bauð Navalny sig svo fram til embættis borgarstjóra Moskvu. Þá voru rifjuð upp ýmis ummæli sem hann hafði áður látið falla, til dæmis um yfirvöld í sjálfstjórnarhéraðinu Tétsníu, sem er hluti af rússneska sambandslýðveldinu, og sömuleiðis um stjórnvöld á öðrum svæðum í Kákasus, þar sem múslimar eru í meirihluta. 

Hlusta má allan pistilinn í spilaranum hér að ofan, eða á hlaðvarpsveitum á borð við Spotify og iTunes. Í pistlinum er meðal annars rætt við Dmitry Dubrovsky, mannréttindasérfræðing og dósent við Higher School of Economics í Sankti Pétursborg og Moskvu. Hann segir að það sama sé uppi á teningnum í þessum kosningum eins og öðrum í Rússlandi, fjölmörgum stjórnarandstæðingum sé ekki leyft að bjóða sig fram.