Athugið þessi frétt er meira en mánaðargömul.

Flóttafólki loks hleypt í land eftir milliríkjadeilur

13.09.2020 - 08:48
Erlent · Afríka · Ítalía · Líbía · Malta · Miðjarðarhaf · Evrópa
Mynd með færslu
 Mynd: Mediterranean Saving Humans
Hópur flóttafólks sem hefur verið á sjó í meira en 40 daga var hleypt á land á Ítalíu í gærkvöld, eftir að hafa freistað þess að komast frá Líbíu og yfir Miðjarðarhafið til Evrópu. Fólkinu var bjargað um borð í danskt skip, sem síðan var meinað að leggjast að bryggju í þremur ríkjum.

Breska ríkisútvarpið greinir frá því danska tankskipið Maersk Etienne hafi komið að lekum bát þar sem 27 flóttamenn voru um borð, þar af ein ófrísk kona. Stjórnendur skipsins sögðu að yfirvöld á Möltu hefðu beðið um aðstoð við að koma fólkinu til bjargar. Að lokum sögðu yfirvöld þar að fólkinu hefði verið bjargað utan hafsvæðis Möltu og neituðu að taka við fólkinu. Það sama átti við um Ítalíu og Líbíu, sem kröfðust þess að fólkið færi á land á Möltu. Og á meðan deilurnar stóðu yfir komst skipið hvergi að bryggju.

Spennan var mikil á skipinu á meðan, þar sem vistir fóru hratt þverrandi. Flóttafólkið freistaði þess að koma skilaboðum í fjölmiða svo fjölskylda þess vissi að það væri á lífi. Sumir stukku frá borði og freistuðu þess að synda í land, en var bjargað aftur um borð.

Loks náðist svo samkomulag um að flytja fólkið í land í Sikiley og var það gert í gærkvöld. Hjálparsamtök sem starfa með flóttafólki á Miðjarðarhafi segja málið vera hneyksli, ekki síst þar sem á sama tíma eru yfirvöld á Grikklandi að reyna að veita um 12 þúsund flóttamönnum húsaskjól eftir að Moria-flóttamannabúðirnar brunnu á eyjunni Lesbos í vikunni.