Flóttafólk flutt í nýjar búðir sem líkt er við fangelsi

13.09.2020 - 14:51
Erlent · Flóttamenn · Grikkland · Lesbos · Evrópa
Mynd: EPA-EFE / ANA-MPA
Yfirvöld í Grikklandi ætla að opna nýjar flóttamannabúðir sem allra fyrst í stað Moria-búðanna sem brunnu á dögunum. Um 12 þúsund flóttamenn hafa verið á vergangi síðan, en myndband sem sýnir meðferðina á fólkinu hefur vakið athygli á samfélagsmiðlum.

Búið er að setja upp nýjar búðir, nokkrum kílómetrum frá því þar sem Moria-búðirnar stóðu. Búðirnar eiga að geta hýst um 3.000 manns að sögn yfirvalda, en svipað var uppi á teningnum í Moria. Þar var engu að síður um 13 þúsund flóttamönnum safnað saman. 

Salam Aldeen, stofnandi Team Humanity samtakanna, hefur dvalið á Lesbos í fimm ár og sinnt mannúðaraðstoð til flóttafólks. Hann birti myndskeið á Facebook í dag þar sem hann sýnir yfirvöld á Lesbos vera að flytja flóttafólkið nauðugt í nýju búðirnar.

„Þetta er það sem lögreglan á Lesbos er að gera. Þetta eru manneskjur sem þarfnast hjálpar, þær hafa enga rödd hér og geta ekkert annað en öskrað. Lögreglan gerir það sem henni sýnist og þarf ekki að taka neina ábyrgð á gjörðum sínum. Eru mannréttindi í Evrópu horfin?“ skrifar Aldeen á Facebook.

„Grikkland ræður ekki við þetta“

Fréttamenn AFP á staðnum hafa rætt við flóttafólk í dag. Zola, kona frá Kongó sem er með fimm mánaða barn sitt með sér, sagði að í Moria-búðunum hafi fólk haft ákveðið frelsi. Nýju búðirnar yrðu hins vegar eins og fangelsi. 

Aldeen ræddi stöðuna í kvöldfréttum RÚV á föstudag. Hann sagði að stjórnmálamenn í Evrópu bæru ábyrgð á stöðunni, að safna fólki svona saman og ýta því að ystu mörgum.

„Grikkland ræður ekki við þetta. Grikkir réðu ekki við það áður og ráða ekki við það núna. Það sem við þurfum núna er að Evrópa taki á vandanum og fari að flytja flóttamenn héðan til landa um alla Evrópu,“ sagði Salam í kvöldfréttum RÚV á föstudag.

 

Mynd með færslu
 Mynd: Skype - RÚV
Salam Aldeen, hefur dvalið á Lesbos í fimm ár.
andriyv's picture
Andri Yrkill Valsson
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi