
Héraðsstjórinn í Suður Kivu fullyrðir að fimmtíu námumenn hafi látið lífið þegar náman féll saman í kjölfar úrhellisrigningar.
Alexandre Bundya borgarstjóri Kamituga segir nítján fjölskyldur vera að leita horfinna ástvina en hann viti ekki hve margir hafi unnið í námunni. Í fyrstu notuðust björgunarmenn við skóflur og jafnvel hendurnar einar við moksturinn en í dag bættist þeim liðsafli skurðgröfu til verksins.
Að sögn AFP fréttastofunnar hætti kanadíska fyrirtækið Banro vinnslu í námunni í september á síðasta ári. Mennirnir sem í námunni unnu voru því þar á eigin vegum.
Þeir höfðu lifibrauð sitt af því að grafa eftir gulli sem þeir seldu kaupmönnum á svæðinu sem komu því svo áfram í hendur stórra erlendra fyrirtækja. Slys af þessu tagi í Kongó eru tíð og iðulega banvæn.