Athugið þessi frétt er meira en 6 mánaða gömul.

Búa sig undir að tala látinna eigi eftir að hækka mikið

13.09.2020 - 08:19
epa08665561 Vehicles that were destroyed by the Bear fire, part of the North Complex fires, in Berry Creek, California, USA, 12 September 2020. According to reports, more than 100 wildfires are burning across 12 western USA states.  EPA-EFE/PETER DASILVA
 Mynd: EPA-EFE - EPA
Ekkert lát er á gróðureldunum sem logað hafa á vesturströnd Bandaríkjanna. Tala látinna er komin yfir 30, auk þess sem tuga er saknað í Oregon-ríki. Yfirvöld segja að nauðsynlegt sé að búa sig undir mikinn fjölda dauðsfalla í viðbót.

Meðal þeirra sem hafa látist síðasta sólarhringinn er 13 ára drengur, sem hafði komið sér fyrir inni í bíl með hundinn sinn í fanginu. Hitinn var svo mikill að dekkin höfðu bráðnað undan bílnum á malbikinu. 

Eldarnir loga mest í Oregon, Kaliforníu og Washington-ríki. Milljónir hektara hafa brunnið og þúsundir húsa með þar sem tugþúsundir hafa þurft að flýja heimili sín. Vegna reykmengunar sem fylgir eldunum eru loftgæði í Portland, stærstu borg Oregon-ríkis, þau verstu í heimi samkvæmt mælingum.

Donald Trump Bandaríkjaforseti ferðast til Kaliforníu á morgun og ætlar þar að hitta viðbragðsaðila. Hann hefur kennt því um að ekki hafi verið hugað nægilega vel að grisjun skóga á svæðinu og þess vegna sé eldsmaturinn svona mikill og afleiðingarnar eftir því.

Joe Biden, forsetaframbjóðandi Demókrataflokksins, segir Trump hins vegar viljandi horfa framhjá staðreyndum um að eldarnir væru til komnir vegna áhrifa loftslagsbreytinga. 

Skógareldar loga oft á vesturströnd Bandaríkjanna á þessum tíma árs, en hafa verið óvenjumiklir í ár. Þá eru áhyggjur yfirvalda miklar yfir framhaldinu, því yfirleitt stendur þurrkatíðin yfir allt fram til ársloka. Því gætu eldarnir hæglega logað mun lengur.