Athugið þessi frétt er meira en mánaðargömul.

Brutu gegn útgöngubanni og mótmæltu aðgerðum yfirvalda

13.09.2020 - 10:20
epa08665674 Police prepare to usher demonstrators during an anti-lockdown protest in Melbourne, Australia, 13 September 2020. Previously an anti-lockdown rally was held at the Shrine of Remembrance in Melbourne, resulting in 17 arrests and more than 160 fines being issued for breaching government health directions.  EPA-EFE/ERIK ANDERSON AUSTRALIA AND NEW ZEALAND OUT
 Mynd: EPA-EFE - AAP
Yfir 70 manns voru handteknir í Melbourne í Ástralíu í gær fyrir að safnast saman til mótmæla og þannig brjóta gegn tilmælum yfirvalda um að halda sig heima vegna kórónuveirufaraldursins.

Mótmælin urðu hörð á tímabili svo kalla þurfti út óeirðarlögreglu, en alls voru um 250 manns sem komu saman. Yfirvöld segja tilefnið vera samsæriskenningar sem settar eru fram á samfélagsmiðlum sem eru á móti aðgerðum til þess að hefta útbreiðslu faraldursins. Mótmælendur vilja að útgöngubanni verði aflétt.

Auk þeirra rúmlega 70 sem voru handtekin eiga um 175 manns von á sekt. Mótmælendur hafa víða safnast saman í Ástralíu að undanförnu og krafist meira frelsis. Því er haldið fram að yfirvöld séu að gera allt of mikið úr heimsfaraldrinum, sem hefur orðið meira en 900 þúsund manns að bana í heiminum.

„Enginn hefur gaman af þessum raunveruleika sem við búum nú við, en við eigum heldur ekki efni á að hafna þessum raunveruleika sem við búum við. Við getum ekki opnað allt núna og haldið því opnu. Það væri ekki óhætt,“ segir Daniel Andrews, ríkisstjóri í Viktoríu-fylki. 

Nærri 27 þúsund tilfelli veirunnar hafa greinst í Ástralíu og dauðsföll eru 810, en um 25 milljónir búa í landinu.