Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Borgarstjóri vill að Minjastofnun endurskoði áform

13.09.2020 - 18:13
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Áform Minjastofnunar um friðlýsingu á vegstæði Sundabrautar gætu haft veruleg áhrif á framkvæmdina. Þetta segir Dagur B. Eggertsson borgarstjóri. Hann segist vonast til að þau verði endurskoðuð og hefur beint þeim tilmælum til Minjastofnunar að gæta meðalhófs.

Sundabraut hefur verið hluti af aðalskipulagi Reykjavíkurborgar síðan 1984 og í vor skipaði Sigurður Ingi Jóhannsson, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra starfshóp Vegagerðarinnar og sveitarfélaganna á höfuðborgarsvæðinu sem átti að bera saman tvo kosti; jarðgöng og lágbrú. Niðurstaða átti að liggja fyrir í lok ágúst, en að sögn Dags liggur hún enn ekki fyrir.  

Minjastofnun áformar friðlýsingu við Þerney og Álfsnes sem er á vegstæði síðari áfanga Sundabrautar sem á að liggja frá Gufunesi um Geldinganes, yfir Leiruvog, Álfsnes og Kollafjörð að tengingu við Vesturlandsveg. Dagur segir ljóst að það myndi hafa mikil áhrif á framkvæmdina, verði af friðlýsingunni. 

„Það myndi setja lagningu hennar í ákveðið uppnám á þessum kafla. Þess vegna höfum við beint því til Minjastofnunar að gæta meðalhófs í þessum tillögum hennar vegna þess að það hefur lengi verið unnið með Sundabrautina sem stað, meðal annars út frá því hvar er vitað að séu minjar. En það er alveg nýtt í málinu að það eigi að friða allt svæðið, ekki bara svæðið þar sem eru minjar heldur líka svæðin þar á milli,“ segir Dagur.

Hann segist vonast til þess að Minjastofnun endurskoði áform sín um friðlýsingar.

„Og taki tillit til sjónarmiða borgarinnar og Vegagerðarinnar og annarra.“