Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

„Við erum fólk ekki skepnur“

12.09.2020 - 07:03
Mynd: EPA-EFE / ANA-MPA
Hælisleitendur sem hírst hafa úti síðan Moria-flóttamannabúðirnar brunni í vikunni kröfðust í dag frelsis og þess að fá að komast til meginlandsins. Moria-búðirnar voru stærstu flóttamannabúðirnar í Grikklandi og löngu yfirfullar, þær voru upphaflega ætlaðar um þrjú þúsund manns en þar hafa verið um 13 þúsund. Kórónuveirusmit greindist í Moria í byrjun mánaðar og allir voru settir í tveggja vikna sóttkví. Því var illa tekið og grunur leikur á að kveikt hafi verið í.

Hver sem eldsupptökin voru eru allir þeir sem í búðunum voru í enn verri stöðu en áður. Þúsundir flóttamanna misstu það  litla skjól sem þeir þó höfðu þegar Moria-búðirnar á grísku eyjunni Lesbos brunnu í vikunni. Fólk hefur sofið úti undir beru lofti frá eldsvoðanum og fær hvorki mat né læknisaðstoð. Tíu Evrópusambandsríki hafa samþykkt að taka við 400 börnum og ungmennum sem voru einsömul í búðunum og flest fara þá til Þýskalands og Frakklands. Íbúum á Lesbos sýnist sitt hverjum um búðirnar yfirhöfuð og sumir vilja að þær verði ekki reistar að nýju. Varaforseti framkvæmdastjórnar ESB sagði eftir að hafa skoðað rústirnar að þar yrðu aftur settar upp nýjar og betri búðir. En eftir stendur: hvað á að gera fyrir fólkið sem nú er á berangri. Fólk sem þegar finnst farið með sig eins og skepnur. 

Moria drepur allt

Hælisleitendur gengu í dag frá rústum Moria-búðanna eftir veginum til Mytilena og kölluðu eftir því að sleppa frá Lesbos og þeim yrði hleypt til meginlandsins. Á skiltum einhverra stóð að þeir vildu frelsi frekar en fæðu og að Moria deyddi allt.

Hefði mátt forða

Þórunn Ólafsdóttir, sem þekkir vel til á Lesbos og var þar við móttöku flóttamanna fyrir nokkrum árum segir að fréttir og myndir sem nú berist sýni ástand sem sé orðið jafnslæmt og það var þegar hún kom þar fyrst fyrir fimm árum. Evrópusambandið sem rekur búðirnar geti leyst úr málum en sýna verði frumkvæði og það finnst henni íslensk stjórnvöld þurfi líka að sýna.