Tuga saknað í Oregon og þúsundir heimilislausar

12.09.2020 - 05:16
epa08662023 A handout satellite image made available by MAXAR Technologies shows a satellite view on homes in Northridge Terrace destroyed by Alameda wirldfires that raged Phoenix, Oregon, USA, 09 September 2020 (issued 11 September 2020).  EPA-EFE/MAXAR TECHNOLOGIES / HANDOUT -- MANDATORY CREDIT: SATELLITE IMAGE 2020 MAXAR TECHNOLOGIES -- the watermark may not be removed/cropped -- HANDOUT EDITORIAL USE ONLY/NO SALES
 Mynd: EPA-EFE - MAXAR TECHNOLOGIES
Tuga er saknað vegna gróðureldanna sem hafa lagt fjölda heimila í Oregon í rúst. Tugþúsundir eru heimilislausar vegna eldsvoðanna að sögn Kate Brown, ríkisstjóra í Oregon. Fjögur andlát hafa verið staðfest í ríkinu, en alls eru að minnsta kosti 24 látnir í Kaliforníu, Oregon og Washington við vesturströnd Bandaríkjanna vegna umfangsmikilla gróðurelda. 

Yfir 40 þúsund hafa þegar flúið heimili sín í Oregon og um hálf milljón til viðbótar er í viðbragðsstöðu. Viðvaranir eru allt frá því að fólk eigi að vera tilbúið með helstu nauðsynjar í töskum, yfir í að fólk verði að koma sér tafarlaust að heiman.

AFP fréttastofan hefur eftir Brown að veðurspá næstu daga sé hagstæð í baráttunni gegn eldsvoðunum. Svalara loft og raki séu á leið til Oregon, sem ætti að gera starf slökkviliðsmanna örlítið auðveldara. Alls eru yfir 20 þúsund slökkviliðsmenn víðs vegar að úr Bandaríkjunum að störfum á vesturströndinni.

Haft var eftir Halldóri Þorgeirssyni, formanni Loftslagsráðs, í sjónvarpsfréttum í gær að bein tengsl séu á milli eldanna og loftslagsbreytinga. Sé litið til ársins 1980 þá hafi þeim dögum fjölgað um helming á þessu svæði þar sem hætta skapast á að gróðureldar kvikni.

Róbert Jóhannsson
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi