
Tilraun vísindamanna til að ákvarða útlit Jesú Krists
Um síðustu páska endurbirti tímaritið Popular Mechanics næstum átján ára gamla grein þar sem fjallað var um tilraunir vísindamanna til að ákvarða hvernig Jesú hefði raunverulega litið út.
Erfðaefni hans er hvergi að finna þannig að breskir réttarmeinafræðingar tóku höndum saman við ísraelska fornleifafræðinga og gerðu tilraun til að endurskapa ásjónu Jesú.
Með því að rannsaka höfuðkúpur og bein Palestínumanna frá tímum Jesú Krists hér á jörð telja vísindamennirnir að þeim hafi tekist að draga upp mynd af manni sem gæti líkst honum.
Til að átta sig hvernig litarhafti, hár- og skeggvexti Jesú hefði verið háttað horfðu vísindamennirnir til mannamynda frá fyrstu öld, sem fundist hafa við fornleifauppgröft. Myndirnar gefa til kynna að Jesú hafi sennilega verið dökkeygur og skeggjaður.
Vísindamennirnir telja jafnframt að hann hafi verið stuttklipptur og vísa þá til andúðar Páls Postula á síðhærðum karlmönnum, sem birtist í fyrsta Kórinþubréfi. Þeir telja ólíklegt að Páll hefði lýst síðu hári karlmanna sem vansæmandi hefði háralag Krists verið með þeim hætti.
Rannsóknir benda til að meðalhæð Palestínumanna á tímum Jesú hafi verið um 155 sentímetrar og meðalþyngd þeirra um 50 kílógrömm. Þar sem Jesú var fyrrverandi trésmiður álykta vísindamennirnir að hann hafi verið kraftalegur vexti og útitekinn. Jafnvel hafi hann litið út fyrir að vera eldri en þrítugur.
Teiknarinn Richard Neave sem dró upp ásjónu Krists ítrekaði að niðurstaða vísindamannana sýni aðeins tilgátuteikningu af fullorðnum karlmanni sem lifði á sömu slóðum og sama tíma og Jesú. Hann hefur einnig endurgert andlit tuga frægra persóna úr veraldarsögunni með svipuðum aðferðum og myndina af Jesú.
Alison Galloway fornleifafræðingur við Kaliforníuháskóla í Santa Cruz segir teikningar réttarmeinafræðinga ekki nákvæm vísindi, enda mörg vafamál uppi þegar kemur að því að endurskapa andlit fólks. Á hinn bóginn telur hún að teikningin gæti verið nær lagi en margar þeirra sem listmálarar hafi gert um aldir.