Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Þúsundir Þjóðverja mótmæla Covid stefnu stjórnvalda

12.09.2020 - 16:41
epa08664457 Police officers talk to a demonstrator who does not comply with the mask obligation during a demonstration against coronavirus restrictions at the Theresienwiese in Munich, Bavaria, Germany, 12 September 2020. Around 8,000 demonstrators took part in the demonstration, which was against the current measures to contain the spread of the coronavirus SARS-CoV-2, which causes Covid-19 disease.  EPA-EFE/LUKAS BARTH-TUTTAS
 Mynd: EPA-EFE - EPA
Þúsundir hafa safnast saman í þýskum borgum í dag til að mótmæla aðgerðum stjórnvalda gegn útbreiðslu kórónuveirunnar. Hundruð gengu um götur Varsjár í Póllandi í sama tilgangi.

Átta þúsund gengu um götur Munchen í Þýskalandi, flest án þess að hafa grímu fyrir vitum sér. AFP fréttastofan hefur eftir lögregluyfirvöldum borgarinnar að með því hafi fólkið brotið opinbera tilskipun um grímunotkun á almannafæri. Svipað var uppi á teningnum í borgunum Hanover og Wiesbaden.

Þau sem safnast saman í andófi gegn aðgerðum yfirvalda eru af ýmsu sauðahúsi. Sum lýsa sjálfum sér sem fólki með sjálfstæða hugsun, önnur eru baráttufólk gegn bólusetningum. Áhangendur samsæriskenninga og öfga-hægrimenn eru einnig áberandi í mótmælagöngunum í borgum Þýskalands.

Í ágúst söfnuðust þúsundir saman í Berlín í sama skyni en þá brutust út nokkur átök. Engin tíðindi hafa borist af árekstrum í mótmælum dagsins. Angela Merkel Þýskalandskanslari kveðst hafa skilning á því að urgur sé í fólki vegna stífra samkomutakmarkana og að öllum sé frjálst að mótmæla ákvörðunum yfirvalda með friðsamlegum hætti.

Mótmælendur í Varsjá báru spjöld með áletrunum sem brigsluðu stjórnvöldum um lygar varðandi faraldurinn, á öðrum var Bill Gates fordæmdur enda telja margir samsæriskenningasmiðir að hann standi að baki útbreiðslu kórónuveirunnar.