Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

„Þetta voru mistök, engin spurning“

12.09.2020 - 15:05
Mynd: Samsett / Samsett
Biskupsstofa vann heimavinnuna ekki nægilega vel áður en farið var í að setja Jesú fram með brjóst og andlitsfarða til þess að fagna fjölbreytileikanum, kynna sunnudagaskólann og vetrarstarf kirkjunnar. Þetta segir prestur í Grafarvogskirkju, og segir kirkjuna nú sitja uppi með afleiðingarnar.

„Þegar þú tekur viðkvæm og eldfim mál eins og trú, kynvitund og börn, og blandar því öllu saman í markaðs- og kynningarátaki, þá ertu bara búinn að búa til dálítið eitraðan kokteil - eða skringilegan kokteil að minnsta kosti, sem fáir eru tilbúnir til að drekka,“ sagði séra Grétar Halldór Gunnarsson, prestur í Grafarvogi, í Vikulokunum á Rás eitt í morgun.

Mjög skiptar skoðanir eru um þennan óhefðbundna Jesú og hafa margir tjáð andúð sína á uppátækinu á meðan aðrir fagna. 

„Þannig virðist þetta hafa gerst. Að fólk á Biskupsstofu bjó til þennan skringilega kokteil, sendi hann út og hann fór bara öfugt ofan í ofboðslega marga. Bæði innan kirkjunnar og innan hinsegin samfélagsins, því það virðist vera að ekki nægileg forvinna hafa verið unnin,“ segir Grétar.

Hann var spurður að því hvort hann teldi að kirkjan hefði gert mistök með þessari framsetningu.

„Þetta voru mistök, engin spurning. Ég hefði viljað sjá í framhaldi af því yfirstjórn kirkjunnar ganga fram og tala til fólksins sem upplifði þetta sem mistök, eða vinna með þessa herferð öðruvísi. En það hefur verið talsvert mikil þögn upplifi ég, en áfram skríður þessi herferð. Margir eru undrandi og reyna að sætta sig við þetta,“ sagði séra Grétar Halldór Gunnarsson.

Uppfært: Þjóðkirkjan hefur tekið myndina úr birtingu á Facebook-síðu sinni, en hún verður áfram notuð í kynningarefni á vegum kirkjunnar.