Taprekstur HSN fjármagnaður með rekstrarafgangi

12.09.2020 - 10:32
Mynd með færslu
Jón Helgi Björnsson, forstjóri Heilbrigðisstofnunar Norðurlands.  Mynd: Björgvin Kolbeinsson - RÚV
Tæplega 64 milljóna króna halli var á rekstri Heilbrigðisstofnunar Norðurlands í fyrra og var hann fjármagnaður með rekstrarafgangi ársins 2018. Þetta kom fram á ársfundi stofnunarinnar sem fram fór með fjarfundi á fimmtudag. Rekstur ársins sé í jafnvægi.

Þjónusta stofnunarinnar nær til ríflega 35 þúsund íbúa frá Þórshöfn í austri til Blönduóss í vestri. Stofnunin er með meginstarfsemi á sex stöðum;  á Húsavík, Akureyri, Dalvík, í Fjallabyggð, á Sauðárkróki og Blönduósi, rekur 17 heilsugæslustöðvar og 149 sjúkra-, hjúkrunar- og dvalarrými á Húsavík, Siglufirði, Sauðárkróki og Blönduósi auk hjúkrunar- og dvalarheimilisins Hvamms á Húsavík sem er með 40 rými. 

Á árinu var sett á fót geðheilsuteymi fyrir Norðurland. Jón Helgi Björnsson, forstjóri Heilbrigðisstofnunar Norðurlands, segir það mikið framfaraskref og að ljóst sé að sú aukning sem hafi orðið í rafrænum samskiptum í fyrra eigi aðeins eftir að aukast.

Á ársfundinum kom einnig fram að með góðri aðsókn í sérnám í heimilislækningum horfi til betri vegar að ráða í stöður heimilislækna í umdæminu. Erfiðlega hafi reynst að fá hjúkrunarfræðinga í afleysingar og að manna ákveðnar starfseiningar innan Heilbrigðisstofnunarinnar en mönnun sé víða nokkuð góð og í samræmi við heimildir.  Þá kom fram að undirbúningur að byggingu tveggja nýrra heilsugæslustöðva á Akureyri væri á áætlun og gert ráð fyrir að þær verði tilbúnar í lok árs 2023. 
 

Ásrún Brynja Ingvarsdóttir
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi