Athugið þessi frétt er meira en mánaðargömul.

Sögulegur halli ríkissjóðs Bandaríkjanna

12.09.2020 - 01:41
Mynd með færslu
 Mynd: Shutterstock
Halli ríkissjóðs Bandaríkjanna nemur nú rúmlega þrjú þúsund milljörðum bandaríkjadala, jafnvirði rúmlega 400 þúsund milljarða króna. Hallinn kemur að mestu leyti til vegna útgjalda ríkisins í baráttunni gegn kóronuveirufaraldrinum, sem nema um tvö þúsund milljörðum dala. 

Alls hafa útgjöld Bandaríkjastjórnar numið rúmum sex þúsund milljörðum dala, en skatttekjur ríkissjóðs eru um þrjú þúsund milljarðar. Hallinn fyrstu ellefu mánuði fjárhagsársins er þegar orðinn meiri en hann hefur nokkru sinni verið á ársgrundvelli. Það met var sett árið 2009, í kjölfar efnahagskreppunnar árið áður.

Stefndi þegar í mikinn halla

Áður en faraldurinn skall á stefndi ríkissjóður í eitt þúsund milljarða dala halla, sem þykir mjög mikið. Fjármálanefnd Bandaríkjaþings telur líkur á að hallinn verði 3.300 milljarðar dala, og heildarskuldir ríkisins nemi um 26 þúsund milljörðum við lok þessa fjárhagsárs.

Ársfjórðunginn apríl til júní var efnahagssamdrátturinn í Bandaríkjunum yfir 30% á ársgrundvelli. Það er versti ársfjórðungssamdráttur í sögu Bandaríkjanna. Fréttastofa BBC segir gögn sýna að fleiri uppsagnir séu framundan og fyrirtæki verði að loka. Um 30 milljónir Bandaríkjamanna, eða fimmtungur vinnuafls Bandaríkjanna, er á einhvers konar atvinnuleysisbótum.

Róbert Jóhannsson
Fréttastofa RÚV