Athugið þessi frétt er meira en 9 mánaða gömul.

„Segja eitthvað sem skiptir máli“

Mynd: RÚV / Menningin

„Segja eitthvað sem skiptir máli“

12.09.2020 - 11:08

Höfundar

„Hver og einn nálgast veröldina og miðlar henni með svo ólíkum hætti að það er engu líkara en að hér mæsist 40 ólík skynfæri í safninu,“ segir Atli Bollason, einn sýningarstjóri útskriftarsýningar nema í hönnun og arkitektúr í Listaháskóla Íslands.

Nemendur í vöruhönnun, grafískri hönnun, arkitektúr og fatahönnun sýna verk sín í Gerðarsafni undir yfirskriftinni 40 skynfæri. Ólöf Rut Stefánsdóttir er sýningarstjóri námsbrautar í vöruhönnun og segir nemendurna hafa kafað djúpt í undirbúningi fyrir sýninguna. „Þau eru öll búin að vinna gífurlega rannsóknarvinnu og út frá því skapa sinn heim, allt frá sjálfspælingum um útlit, mörg verkin eru á mörkum upplifunarhönnunar og svo förum við alveg yfir í áþreifanlega vöruhönnun. Það sem er svo skemmtilegt er hvað þetta spannar vítt svið og sýnir hvað vöruhönnun er í raun breitt fag.“

Fær nýtt líf sem hlíf

Meðal nemenda í vöruhönnun er Lena Rós Baldvinsdóttir, sem fór ótröðnar slóðir sinni nálgun. „Í útskriftarverkefninu mínu valdi ég að vinna með Landsbjörg, mér finnst þau gefa svo mikið af sér til samfélagsins þannig að mig langaði að gefa til baka. Ég komst að því í rannsókninni minni að hjá Slysavarnaskóla sjómanna falla til margir flotgalla á hverju einasta ári. Þeim er hent í heilu lagi, þeir eru ekki endurnýttir og mig langaði að lengja líftíma efnisins og koma þeim aftur inn í ferli Landsbjargar. Spurningin mín var þá bara hvar og í samtali við Hjálparsveit skáta í Reykjavík komst ég að því að þau vantaði vatnshelda hlíf yfir sjúkrabörur. Þannig að þarna sá ég samtal á milli: ég gæti nýtt þetta sterka og endingargóða vatnshelda efni úr flotgallanum í að búa til hlíf,“ segir hún. Hlíf Lenu reyndist þarfaþing og er nú þegar komin í notkun.

Fjarstæða reyndist raunveruleiki

Í útskriftarverkefnum arkitekta kennir ýmissa grasa þrátt fyrir að unnið hafi verið með sameiginlegt þema, en meðal lokaverkefna voru athvarf fyrir langveika, gönguskáli fyrir ferðafólk og sálfræðistofa. „Í lokaverkefnunum höfum við unnið með ákveðna staði og í ár var vettvangurinn Reykjanes og hópurinn byrjaði á sameiginlegri rannsókn þar,“ segir Anna María Bogadóttir sýningarstjóri námsbrautar í arkitektúr. „Við höfum einnig unnið með skáldverk. Núna lögðum við inn bókina Eyland eftir Sigríði Hagalín Björnsdóttur og hvöttum nemendur til að sækja sér innblástur þar. Í þeirri sögu er lagt út frá því að Ísland skyndilega einangrist frá umheiminum sem þótti algjörlega fjarstæðukennt í upphafi annar en reyndist síðan vera sjálfur raunveruleikinn og við stigum inn í tímabil þar sem Ísland að mörgu leyti einangraðist.“ Að hennar sögn er ýmsar hliðstur að finna milli fagsins og skáldaðra sagna. „Við erum kannski að leika okkur með því að spegla okkur við skáldskapinn að horfa í það að arkitektúr er alltaf skáldskapur, þetta er kannski rýmisskáldskapur þar sem hver og einn er að vinna með samhengi og aðstæður sem hann er að bregðast við þannig að þetta er bæði mjög raunverulegt og mjög skáldað.“

Japanskur torfbær

Arkitektaneminn Úlfur Bragi Einarsson rýndi í efnivið bygginga og leitaði nýrra leiða í því samhengi. „Ég hannaði þekkingarsetur í íslenskum byggingariðnaði til að reyna að rannsaka hvaða aðferðir og byggingarefni hafa verið notuð á landinu fram að þessu og eins og í bókinni, ef eyjan skyldi nú lokast af og við þyrftum kannski að snúa aftur í þær aðferðir, hvernig við myndum bjarga okkur þá.“

Að hans sögn eru gamlar aðferðir seigar. „Torfbærinn sem við eigum hefur alls konar góða kosti og ég notaði hann eiginlega sem grunn í aðalvistarverunum á svæðinu. Ég reyndi síðan að byggja ofan á hann með japönskum timburhugleiðingum. Ég var að reyna að vinna dálítið með efnin á svæðinu og var þá að skoða grjót, melgresi og þara sem er þarna mikið í þessum fjörum.“

Ljótt og fallegt

Atli Bollason stýrði sýningu nema í grafískri hönnun. „Sumir eru að tækla letur úr fortíðinni eða fúnksjónal letur til framtíðar, umhverfismálin koma aðeins fyrir, nánd foreldra og barna, umbúðir, ljótar og fallegar, tilfinningar, hvernig táknum við tilfinningar? Þetta er mjög mikil breidd.“

Að hans sögn veltu nemendur fyrir sér veigamiklum spurningum í aðdraganda sýningar. „Umhverfismálin voru fólki hugleikin og bara almennt „hvernig get ég notað þessa menntun til að hafa áhrif?“ „Hvernig get ég notað tækni grafískrar hönnunar ekki bara til þess að selja hluti heldur segja eitthvað sem skiptir máli og hreinlega fá fólk til að haga sér öðruvísi?““

Meðal núýtskrifaðra grafískra hönnuða er Markús Bjarnason. Hans verk á sýningunni er innsetning með lifandi vídjóverki. „Þetta er eiginlega rannsókn. Ég var að skoða hvernig hljóð og hreyfigrafík tala saman og langaði svolítið til að gera eitthvað efnislegt, eitthvað í höndunum, í staðinn fyrir að gera bara á skjá. Þannig að ég endaði á að gera vínylplötu sem er glær, ég set plötuumslagið á plötuspilara og vínylplötu ofan á umslagið þannig að þegar plötuspilarinn snýst þá kemur náttúrulega hljóð úr vínylplötunni og grafíkin verður að hreyfigrafík. Þetta var mikil rannsókn og tilraunastarfsemi en ég fékk þetta einhvern veginn til að virka,“ segir hann.

Nánari upplýsingar um sýninguna má finna hér.

Tengdar fréttir

Pistlar

Fararsnið útskriftarnema Listaháskólans

Myndlist

Vélmenni, þögult diskó og illgresismyrsl í LHÍ

Hönnun

Listaháskólinn og Litla-Hraun í eina sæng

Lærði að vera sexý í listaháskólanum