Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Óháður aðili þarf að kanna hvort mistök hafi orðið

Fullt tilefni er til að landlæknisembættið fái óháðan aðila til að kanna hvort mistök hafi átt sér stað við greiningu sýna hjá Krabbameinsfélaginu lengra aftur í tímann en til 2018.

Þetta sagði Sævar Þór Jónsson lögmaður í kvöldfréttum sjónvarps en hann hyggst tilkynna mál tveggja látinna kvenna til embættisins eftir helgi.

Ætla megi að megi að mistök hafi verið gerð hjá félaginu um árabil. Staða mála nú veki mikið óöryggi og því þurfi að grípa þegar inn í og ekki bíða til áramóta við að breyta því fyrirkomulagi á greiningum sem fyrir er. Hann kveður fullt tilefni til að gera það strax. 

Önnur kvennanna fór í krabbameinsskoðun árið 2013 en hún fór ekki í frekari rannsókn sem þó hefði verið fullt tilefni til. Hún lést 2017. Hin fór í sýnatöku 2016 og er látin. Þær voru 25 og 40 ára.

Sævar kveðst vera með fimm mál á sínu borði núna en fjöldi fólks hafi leitað til hans vegna mögulegra mistaka af hálfu Krabbameinsfélagsins.