Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Mikil þörf á sérhæfðri COVID-eftirmeðferð

12.09.2020 - 18:12
Mynd með færslu
 Mynd: Bjarni Rúnarsson - RÚV
Ekki er vitað hversu margir Íslendingar kljást við alvarleg eftirköst þess að hafa veikst af COVID-19. Runólfur Pálsson, forstöðumaður lyflækninga- og endurhæfingarþjónustu Landspítala, segir marga í þessum hópi þurfa mikla þjónustu. Þörf er á sérhæfðu úrræði fyrir þennan hóp. 

 

Runólfur segir það hafa komið á daginn að talsverður fjöldi fólks glími við eftirköst COVID-19, en engar tölur liggi fyrir um fjöldann. Vísbendingar hafi verið um það frá því í vor, frá fyrstu bylgju faraldursins.

„Einstaklingar hafa verið að leita til okkar síðan þá. En það var ákveðið á þeim tíma að Landspítalinn myndi sjá um eftirlit með þeim sem veikjast alvarlega og lögðust inn á spítala en aðrir myndu leita til heilsugæslunnar. En það hefur komið á daginn í umræðunni að umfangið er miklu meira en gert var ráð fyrir og að þessir einstaklingar virðast þurfa mikla þjónustu sem krefst skipulegrar og kerfisbundinnar nálgunar og það er einmitt í skoðun núna hvernig bregðast eigi við því,“ segir Runólfur.

Hann segir að ef koma eigi á fót sérhæfðu meðferðarúrræði sé fyrsta skrefið að kortleggja hópinn og að ýmsar slíkar rannsóknir séu nú í gangi bæði á vegum Landspítala og Íslenskrar erfðagreiningar.
Sumir séu með verulega alvarleg eftirköst. 

„Þau geta verið af ýmsum toga. Við höfum séð einstakling sem hefur fengið segarek til lungna, við höfum líka séð tilvik þar sem við höfum afhjúpað undirliggjandi kvilla,“ segir Runólfur.

Hann segir að rannsaka þurfi hvert tilvik vel. Það sé grundvallaratriði að afla meiri þekkingar þannig að hægt verði að skipuleggja viðeigandi þjónustu. „Þetta er mun meira en gert var ráð fyrir og það þarf einfaldlega skipulega nálgun.“